Sunday, October 27, 2013

Við upphaf nýrrar viku

Í mínum huga byrjar vikan á mánudegi. Samt segir í rímunni góðu, sunnudagur, mánudagur og svo framvegis. Á mánudögum fer ég lyfjameðferð og fæ lyfjagjöf sem á að bjarga mér úr krabbaklóm. Það er samt sem áður ekki beint tilhlökkunarefni. Nema að á mánudögum hitti ég pottþétt einhvern sem er mér kær. Sem kemur með mér og situr hjá mér og skemmtir mér. Það er náttúrulega ómetanlegt.

Ég hef ekki bloggað mikið síðan síðast. Ég gerðist svo djörf að deila færslunni um aðgerðir strax með FB vinum mínum og Guðmundur með sínum. Viðbrögðin voru mögnuð og skemmtileg og yndisleg. Við fengum bæði öldu af skilaboðum og stuðningi sem okkur er svo dýrmætur. Það er erfitt að opinbera veikindi sín en ég vil heldur ekki að þetta sé eitthvað leyndó. Og ef skrifin skemmta einhverjum eða hvetja til dáða þá er það bónus. Það er líka stundum erfitt fyrir okkur að útskýra hvað er í gangi hjá okkur og betra að fólk sem hugsar til okkar geti fylgst með hér.

Og fyrir áhugasama þá gekk vikan vel. Ég fór í minn skammt (vinkona mín benti mér á að þetta væri svoldið dópistalegt tal hjá mér en svona er þetta bara ;-)) og átti svo góða daga á eftir. Hárið er enn á hausnum en ég er farin að huga að alls konar úrræðum til að létta mér það þegar það fer. Bjarki Freyr hefur engan sérstakan áhuga á að ég sé með kollu en hann telur að það yrði afskaplega vandræðalegt fyrir mig þegar kollan fyki af mér. Það er rökrétt hugsað hjá honum enda aldrei logn hér á holtinu góða.

Úti að labba
Í vikunni sem leið fór ég í gönguferðir daglega, hitti fullt af skemmtilegu fólki, fór í FSu og í menntamálaráðuneytið vegna vinnu minnar og átti góðar stundir með fjölskyldunni og vinum. Anna Katrín var veik og heppilegt að ég gat sinnt henni. Hún var að pinna á meðan ég var að vinna. Rímar. Sem er alltaf gott.

FSu
AKG að pinna.
Næsta vika gæti litast af lyfjum en kannski verður bara eins og síðast. Þreyta með köflum en annars nokkuð gott.



3 comments:

  1. Elsku frænka, takk fyrir að deila þessari reynslu með okkur, þú ert algjör hetja í þessari baráttu! Knús! Sigga Þóra.

    ReplyDelete
  2. Elsku Guðrún Birna! Takk fyrir að deila þessu með okkur og gangi þér rosalega vel í þessari baráttu. Þú átt eftir að massa þetta á þessari jákvæðni :-). Við hér á Akureyrinni sendum þér baráttukveðjur og stórt knús! Kveðja Eygló

    ReplyDelete