Tuesday, February 18, 2014

Good times

Ég ætlaði að vera duglegri hér og ekki bara kvabba um kerfið. Stóra sundbolamálið er reyndar stærra mál þar sem reglugerðin tekur út brjóstahöld líka. Vægast sagt ósanngjarnt og réttlætiskennd minni er stórlega misboðið. Mun reyna að koma af stað umfjöllun um málið.

En að öðru. Í gær var næst síðasta skipti af þessari lotu. Leið mun betur í gær en fyrir þrem vikum. Ég finn fyrir meiri andlegri og líkamlegri þreytu og þráðurinn er oft stuttur. Reyni þó eins og ég get að halda ró minni. Ég er viðkvæmari fyrir vanhugsuðum athugasemdum og þoli illa aumingja þú stemningu. Þá er nú gott að eiga góða að. Sæll hvað ég á marga svoleiðis. 

Í gær var stemnngin svona:


 Takk stelpur og sorry starfsfólk og sjúklingar á 11 b. Hló endalaust. Sérstaklega af crazy stalker/photobomber. 

Friday, February 7, 2014

Þegar kerfið klikkar - stóra sundbolamálið

Í einni af fyrstu færslunum mínum talaði ég um að á einum tímapunkti beindist reiði mín að kerfinu. Kerfið var ekki að setja nægilegt fjármagn í heilbrigðiskerfið. Heilbrigðiskerfið var ekki að standa sig gagnvart mér. Ég var að pirra mig út í kerfið. Eitthvað óskilgreint kerfi sem ræður mörgu og er alls staðar en erfitt að hafa stjórn á.

Mér fannst ýmislegt hefði betur mátt fara í upphafi þessarar vegferðar (æi svoldið kljént orð en þannig sé ég þetta. Vegferð - hindrun á leið - verkefni - hvað sem þið viljið kalla þetta dæmi). Mér fannst kerfið ekki grípa mig þegar þess þurfti en það komu aðrir að því, fjölskyldan og vinir voru það öryggisnet sem greip mig og umvafði þegar ég þurfti á því að halda.

Kerfið. Núna finn ég mikinn pirring út í Kerfið. En ástæðan er eiginlega fáránleg og mér finnst það fyndið hvað ég er pirruð út í Kerfið. Ég kalla málið - stóra sundbolamálið. Það er þannig að þegar annað brjóstið er tekið þá er maður ekki alveg heill lengur. Ég er áberandi öðruvísi þó það trufli alls ekki dags daglega og ekki okkur hér heima. Við segjum að ég sé brjóstgóð og finnst við hrikalega fyndin. Anna Katrín er bara tveggja og hálfs og er ef til vill óeðlilega upptekin af brjóstum miðað við aldur. Hún skoðar sig og svo mig og spáir í hver er með brjóst og hver ekki. En allavega þá kemur að því að mig langar að fara með þeim í pott og í sund. Við, eins og margar aðrar fjölskyldur hér á landi, elskum að fara í sund. Það er oft það eina sem við gerum. (Samanber - hvað gerðuð þið um helgina? Svar: Við fórum í sund (mikið stolt og vandræðalega mikil gleði sem fylgir í raddblænum). Það er frábært að fara í sund.

En Kerfið. Ég fékk fréttir í haust að ég ætti rétt að kaupa mér gervibrjóst og haldara. Ég fór í Eirberg og fékk fína þjónustu. Ég keypti mér haldara, brjóst, íþróttatopp, hlírabol en náði ekki að græja sundbol þar sem það var ekki til fyrir mig og mitt brjóst. Þær hringdu svo í mig í byrjun janúar og sögðu að nú væru sundbolir komnir og ég ætti að koma að kíkja. En báðu mig samt að hafa í hug að vegna reglugerðarbreytingar þá væru sundbolir ekki lengur inni í þeim pakka sem áður var greiddur fyrir konur í minni stöðu. Orðið reglugerðarbreyting er náttúrlega þannig í eðli sínu að maður fær hroll. Ég sé fyrir mér einhvern karl eða konu íhuga fyrir sér sparnað eða breytingar sem muni gagnast og samtalið á skrifstofunni er þá svona?

Starfsmaður: Jæja er ekki algjört rugl að þessar konur með eitt brjóst geti valið hvort þær kaupi sér 6 brjósthaldara eða 3 brjósthaldara, íþróttatopp, hlírabol og sundbol?

Starfsmaður 2: Það er klárlega allt of mikið val.

Starfsmaður: Sundbolur? Hver þarf svoleiðis þegar þú ert með eitt brjóst. Geta þessa konur ekki bara verið í sínum eigin sundbolum? Af hverju þarf RÍKIÐ að greiða svona? Þetta er ekki eins og hækja sem er augljóslega eitthvað sem fótbrotinn maður þarf.

Starfsmaður 2: Nei þetta er náttúrlega bara rugl. Tökum sundbolina út. Einungis brjóstaHALDARAR.

Starfsmaður: Endurhæfing blabla. Issss kaupið þetta bara sjálfar. Það er hvort sem er svo gott að vera sjúklingur á Íslandi. Þarft ekkert að borga. Nema komugjöld, skanna, blóðprufur, bílastæði, lyfjabrunn, lyf.... af hverju ekki sundbolinn líka?

Kona með eitt brjóst: Ja ég veit ekki en víst þið eruð að greiða þessa hjálpartæki sem aðstoðar okkur við að ná okkur á strik og fara út á meðal fólks án þess að verða fyrir óþægilegri athygli sem brýtur okkur niður þá af hverju ekki sundbol? Af hverju ekki að leyfa okkur bara að ráða í hvað styrkurinn fer? Sund getur verið mjög mikilvægur hluti af endurhæfingu og að geta haldið áfram sem eðlilegustu lífi með fjölskyldu og vinum. Mig langar í sund. Mig langar í sundbrjóst og sundbol sem er sérhannaður fyrir mig. Mig vantar ekki fleiri brjóstahaldara og ég vil fá að velja sjálf. Takk samt fyrir að hugsa til okkar og gefa ykkur tíma til að fara yfir reglugerðina.

Vonandi er þetta allt saman bara einhver mistök í Kerfinu.