Thursday, August 14, 2014

Megi hversdagurinn yfirtaka líf þitt að nýju mín kæra

Megi hversdagurinn yfirtaka líf þitt að nýju mín kæra stóð í bréfi til mín sem ég fékk gegnum tölvupóst frá einni af mínum frábæru fyrirmyndum í lífinu. Hún sló þarna naglann á höfuðið. Það er svo dásamlegt að eiga við hversdagsleikann og á þessum árstíma eru flestir farnir að þrá rútínu á ný. Allavega þeir sem hafa verið með börnum heima í fríi í 8-10 vikur!

Við höfum átt viðburðarríkt og gott sumar. Við fórum í útilegur, til Vestmannaeyja, Þýskalands og á skátamót á Akureyri. Við fluttum aftur í Kópavoginn fyrir ca 2 vikum síðan og erum að lenda eftir það allt. Ég kláraði geisla í byrjun júní, fór í vinnuferð til Króatíu stuttu seinna (sem gekk vel fyrir utan hitann sem var að drepa mig!!! en það er ekkert nýtt ;-)) og svo fórum við fjölskyldan til Þýskalands og hittum góða vini og gerðum margt skemmtilegt saman. Ég fæ enn lyf á 3ja vikna fresti en lyfið er ekki eiginlegt krabbameinslyf og hefur mun minni aukaverkanir en hin. Verð áfram að fá lyf fram í desember. Hárið mun vaxa áfram (reyndar aðeins of hægt fyrir minn smekk en hnausþykkt er það og líkist helst teppi. Gömlu íslensku músarlituðu teppi!!! hehe).

Þegar við tókum ákvörðun að flytja vógu veikindin mín þar þungt. Við höfðum það rosalega gott í sveitinni og eigum yndislegar minningar og dásamlega vini sem við ætlum að vera dugleg að halda tengslum við. Við vonum að þessi ákvörðun muni létta aðeins á okkur, álagi og streitu sem fylgir því að keyra til dæmis til læknis og í lyfin. Strákarnir hafa meira við að vera og í hverfinu okkur er stutt í tómstundir og alla þjónustu en samt stutt í falleg göngusvæði og náttúruna. Við erum alsæl með það. 

Það fylgir alltaf kvíði og óöryggi að fara í nýjar aðstæður. En þannig vex maður líka og þroskast. Við þroskuðumst heilan helling á dvölinni í sveitinni og einnig núna aftur þegar við þurfum að takast á við alls konar nýjar áskoranir. Veikindin mín settu allt á hvolf í lífi okkar og nú er að verða komið ár frá því að ég greindist. Ég hef engan sérstakan áhuga á að rifja þá daga upp enda voru þeir hrikalega erfiðir. Ég vil frekar horfa fram á við með jákvæðum huga og lifa sem mest í núinu og segi því eins og þessi afskaplega vitra og yndislega samstarfskona og vinkona mín: megi hversdagurinn yfirtaka líf þitt!