Friday, October 9, 2015

#egerekkitabú

Ég er að fíla þessar Twitter herferðir um alls konar sem þarf að ræða en fáir gera. Herferðin um geðveiki og alls konar fylgikvilla þess að vera mannlegur hreyfir við mér.

Að greinast með erfiðan sjúkdóm er mikið áfall. Fólk finnur styrk víða en hjá mér var strax mikilvægt að finna mér góðan sálfræðing. Ég fer reglulega til sálfræðings sem er sjálfstætt starfandi. Ég get nýtt mér þjónustu á spítalanum en það er í ákveðið mörg skipti og hvað ef ég fíla ekki sálfræðinginn? Ég get líka fengið nokkur skipti í Ljósinu og borga ekkert fyrir það. Þjónustan er því til staðar en vandinn er sá að ég tel mikilvægt að geta valið mér sjálf við hvern ég tala. Ég fann frábæran sálfræðing og hef verið hjá sömu manneskjunni í eitt og hálft ár. Hún þekkir mig mjög vel og það sem ég er að ganga í gegnum. Hún veit í raun ALLT um mig og ég þarf ekki að útskýra neitt til að hún fatti hvað málið er. Við tölum ekki bara um veikindin en hún styður mig í öllu. Ég hlakka til að hitta hana en ég kvíði því að borga. Fyrir mér er þetta nauðsynlegur stuðningur í gegnum erfiðasta tímabil í lífi mínu og ég set því í algjöran forgang að hitta sálann minn. Nauðsyn sem er ekki niðurgreidd. Ekki ein króna. Nú hef ég verið utan vinnumarkaðar líka í nokkurn tíma og get því ekki leitað aðstoðar hjá stéttarfélagi.

Ég fer líka reglulega til sjúkraþjálfara og ég valdi mér hann utan spítala. Vegna stöðu minnar borga ég ekki mikið fyrir þær heimsóknir eða 1.300 ca í hvert skipti. Því fer ég þangað án umhugsunar og klárlega laus við allan kvíða.

Ég hugsa líka um fólk sem er í verri málum en ég. Ég á mann sem er í fullri vinnu og er sammála þessari forgangsröðun. Það er fólk sem hefur ekki efni á því að leita sér aðstoðar og það er slæmt. Kvíðinn og þunglyndið fer að hafa áhrif á fólk þannig að það hættir í skóla, hættir í vinnu, hættir að vera virkir einstaklingar í samfélaginu. Ég er sannfærð um að sálinn minn (og reyndar lyfin mín) munu hjálpa mér að fara aftur út á vinnumarkaðinn einn daginn og vera virkur samfélagsþegn í góðu andlegu jafnvægi. Vonandi fyrr en seinna.

Þessi grein er góð - réttindi en ekki forréttindi: http://www.visir.is/salfraedimedferd---rettindi-eda-forrettindi-/article/2015151008978