Sunday, March 16, 2014

Áttunda skiptið - síðasta erfiða

Fyrir viku síðan fór ég í áttunda skiptið í lyfjagjöf á erfiða stöffinu. Hef farið oftar að fá gjafir en þessar erfiðu teljast nú átta. Og verða ekki fleiri! Vei. VEI. Það hefur gengið vonum framar og nú þori ég að tjá mig um það án þess að vera að jinxa eitthvað. Þið vitið maður má aldrei tala of mikið um það sem gengur vel. Alveg rökrétt og skynsamlegt.

Í upphafi var mér sagt ýmsar sögur. Hárið færi pottþétt. Það fór aldrei alveg. Það myndi blæða úr tánöglunum á mér. Gerðist heldur ekki. Að mér myndi líða eins og ég væri föst í Herjólfi í 3 daga í ólgusjó (takk bróðir). Það varð aldrei svo slæmt. Ég var drulluheppin og er enn. 7-9-13. Meðferðirnir hafa vissulega tekið á og verið erfiðar líkamlega og andlega, en samt aldrei þannig að ég var ælandi í klósettið með hárflyksur út um allt gólf. Dr. Örvar lofaði mér því líka strax í byrjun. Það má segja að þessar aukaverkana sögur hafi hrætt mig það mikið að ég var hrikalega ánægð þegar það svo gerðist ekki. Alveg bara gasalega ánægð með að það væri ekki komin sýking, engar blæðandi tær og enginn Herjólfsfílingur, nema í smá stund. 
Það sem gerðist var bara það að tíminn leið hratt og meðferðirnar gengu vel. Nú hefst nýtt tímabil og ég er rosalega spennt! Næstu vikur ætla ég að hvíla mig vel og byggja upp orku og kraft fyrir geislana sem taka við eftir páska. Það er enn ein óvissan, en þá eins og hingað til, er eina vitið að taka einn dag í einu. Það verða 25 dagar alls og það mun ganga vel! Ef eitthvað kemur upp þá dílar maður við það í rólegheitum. 

Á mánudaginn voru pabbi, Elsa frænka, bróðir minn og Inga Huld að skemmta mér. Við frænkurnar gerðum góðlátlegt grín af bræðrunum feðrum okkar (til dæmis þegar þeir bræður fóru saman í bíó en sátu á sitt hvorum staðnum því þeir hittust ekki fyrir myndina). Við bróðir minn tókum upp þann þráð og gátum hlegið af samskiptum fjölskyldunnar. Inga Huld sagði mér nýjasta slúðrið og skemmtisögur af sjálfri sér. Yndislegar stundir með fólkinu mínu! 

Niðurstöður hamingjurannsókna sýna að það sem veitir manni mesta hamingju eru tengsl við annað fólk, fjölskyldu og vini. Þetta kemur mér ekki á óvart. Ég get ekki sagt að ég hafi verið óhamingjusöm síðustu vikur og mánuði. Til dæmis alltaf hamingjusöm þessa mánudaga þegar ég fæ gjafirnar mínar og hitti fólkið mitt og Hrefnu mína og Óskar lækninn minn. Mér finnst ég heppin að vera uppi á þessum tímum læknavísinda og framfara og þakka fyrir á hverjum degi. Þakklæti og hamingja eru mjög tengd hugtök og því eiginlega nauðsynlegt að vera bæði til að ná þessu réttu. 
Hamingjan verður sannarlega í París eftir tvær vikur en þangað fer ég með hluta af mínum dásamlegu traustu og góðu vinkonum að hitta eina eðalpíu. Svo á ég afmæli á morgun og það er þvílíkt spennandi og skemmtilegt. 

Hamingjan er hér. Hún er hér. Hún er hér!

Monday, March 3, 2014

Um svo margt annað að hugsa

Ég vil þakka stjórnmálamönnum kærlega fyrir að halda mér upptekinni síðustu daga og vikur. Ég hef hugsað stanslaust um allt annað en sjálfa mig. Það er náttúrlega ákveðinn léttir.

Það er hressandi að geta sökkt sér í mál líðandi stundar og gleyma sínum eigin vanda. Eftir hálft ár í þessari vegferð er ég orðin þreytt á umræðunni um mig og líðan mína. Ég verð bara að viðurkenna það að ég nenni þessu ekki alltaf. Því gleðst ég smá yfir klúðri hvers dags og velti mér upp úr fáránlegum ummælum, reiðiköstum, samskiptavanda og virðingaleysi, hroka og almennum leiðindum á Alþingi.

En aftur að mér.
Fólk spyr mig reglulega hvernig gangi. Fólk er auðvitað að sýna áhuga og umhyggju og ég er þakklát fyrir það. Ég veit einnig að vinkonur mínar og fjölskylda fá þessa spurningu reglulega og ég held þau svari eins og ég. Það gengur vel. Stundum segi ég að það gangi rosalega vel. Stundum segir fólk að það gangi vonum framar.

Það að það gangi vel - segir auðvitað ekki mikið í sjálfu sér. Konur á mínum aldri sem hafa til dæmis verið óléttar þekkja þessar spurningu og svörin. Maður nennir ekki að tala um bakverkina, þreytuna, klósettferðir og kvíða við hvern sem er. Maður segir bara að manni líði vel og að það gangi vel.

Það gengur vel. Ég er í fyrirbyggjandi meðferð og á 1 erfitt skipti eftir. Bara eitt skipti af átta.

Nefndarvika á Alþingi. Bíð spennt eftir 10. mars. Síðasta skiptið af erfiða stöffinu og Alþingi hefst á nýju. Þá mun hugur minn fyllast af spenningi og hugsunum um svo margt annað.