Thursday, November 28, 2013

Hláturmeðferð hjá IH

Lunch á Gló með girls. Tók að mér hlutverk gamals manns með staf. Það sem maður leggur ekki á sig. Svo fylgdi IH mér og sagði mér grínsögur. Hló mikið as always. Knús og takk :)

Tuesday, November 26, 2013

Ekki heimavinnandi húsmóðir

Það voru skýr skilaboðin frá móður minni um daginn þegar ég heyrði í henni. Ég var að telja upp afrek dagsins - þau voru ekki mörg eða merkileg en það var eitthvað svona að ég hafi gengið frá eftir morgunmatinn, sett í vélar, búið um. Í staðinn fyrir að hrósa mér þá sagði hún ströng að ég yrði að átta mig á því að ég væri ekki heimavinnandi húsmóðir heldur væri ég sjúklingur. Sjúklingur kjúklingur - það er ekki hægt að vera sjúklingur þegar maður á þrjú börn. Það er allavega mjög erfitt. Lífið hættir ekki þó ég þurfi að taka mér nokkrar pásur frá virkri þátttöku í því. Mamma bakkaði aðeins og sagðist skilja að ég þyrfti að gera þessi helstu verk en ég veit að hún var að styðja mig af öllu hjarta og hvetja mig til að vera ekki með dæmigerða húsmæðrasamviskubitið. Frábær mamma!

Af hverju er ég ekki búin að taka skápana í gegn? Hvers vegna er alltaf drasl í forstofunni? Af hverju er ég ekki búin að sortera dvd-diskana? Af hverju elda ég ekki alls konar mat og set í frysti um helgar? Af hverju baka ég aldrei brauð? Af hverjur er ég ekki tilbúin með heitar pönnsur þegar kids koma heim?   Af hverju er drasl hér og þar? Hvers vegna er ég ekki búin að taka til í sokkaskúffum og skúffum almennt? Hvað er málið með allan þennan þvott? Af hverju, hvers vegna og hvað?

Þetta er brotabrot af spurningum sem ég spyr mig reglulega með strangri röddu. Nú svo er hægt að bæta við öllu jólastússsamviskubitinu. Það eru ókeyptir pakkar, óskrifuð jólakort, óbakaðar smákökkur, ógert handgert skraut, ófarnar ferðir í jóla hitt og þetta.

Nú svo þurfa allir vera vel klipptir, vel klæddir, vel uppaldir og fullkomnir.

Heimavinnandi húsmóðir óskast í Skólatröð ASAP til að bjarga jólunum!

Það er reyndar mánuður til stefnu og ég ætla að anda inn og út og njóta.

P.s. reyndar er ég laus við að ætla að verða mjó um jólin og ég hef ekki hugsað um aukakíló eftir að ég greindist. Eitt af því fjölmörgu góða sem hefur gerst eftir greiningu. Þó vil ég huga að heilbrigði og get skrifað annan pistil um samviskubitið sem ég hef gagnvart sjálfri mér og heilsueflingu fjölskyldunnar. Það er af nógu að taka þar. Til dæmis þegar ég fór að grenja þegar GFS keypti 1 kg af hvítum sykri um daginn. Það var samt steikt, bæði af honum og ok líka af mér að fara að grenja (kenni auðvitað lyfjum og sterum um þessi smá ýktu viðbrögð)!


Tuesday, November 19, 2013

Monday, November 11, 2013

Öll vandamál heimsins leyst

Enn einn yndislegur mánudagur. Vinkonur mínar eiga allan heiður af því hvað mánudagarnir eru góðir dagar. Þó veðrið hafi verið vont þá lét ég ekkert stoppa mig í að fara í gjöfina mína. Anna Kr. kom með mér í dag í fyrsta skiptið. Mikið er ég lánsöm að eiga þessar dásamlegu vinkonur. Ég hlakka alltaf til að hitta þær og eiga góða stund og stundum finnst okkur þetta taka aðeins of stuttan tíma... hlæjum og leikum okkur með myndavélina. Við Anna ræddum stjórnmál og uppeldi og leystum öll mál eins og við erum vanar. Við trítuðum okkur líka aðeins... smá kaffi og hollusta! Ekkert mjög óhollt enda erum við ofboðslega samkvæmar sjálfum okkur og förum eftir því sem við segjum. At all times. Segjum að við séum mjög pirr þegar karlarnir koma heim með kandí... alveg fjúkandi vondar, en komum svo kannski sjálfar heim með kandí næsta dag. Það gerist auðvitað ekki. Nema stundum. En næstum alltaf mjög samkvæmar sjálfum okkur.

Hjúkkan mín spurði mig hvernig mér hafi liðið eftir síðustu gjöf og þegar ég sagði henni að ég hefði farið í leikfimi um kvöldið þá var hún smá hissa. Fór aftur í kvöld og það er alveg geggjað að reyna svoldið á sig. Svo fannst hjúkkunni gaman að sjá enn eina vinkonu mína og spurði mig hvað ég ætti eiginlega margar. Hehe krúttlegt. Ég á náttúrlega fáránlega margar dásamlegar vinkonur og vini og enn eiga þónokkrir eftir að koma með mér! Fá mynd og svona :-)

ELSKA mánudaga!


Thursday, November 7, 2013

Hár á höfði

Ég verð að viðurkenna að það er skrítið að vera með rakaðan haus. Mamma er óskaplega glöð því loksins fá aðrir að njóta fallegs höfuðlags míns sem hún hefur lengi talað um af stolti. Þú ert með svo fallegt höfuðlag, hef ég heyrt svo oft í gegnum árin. Já líklega er það rétt. En það sem henni láðist að ræða og benda á eru stóru eyrun. Nú þegar ég hef opinberað mig með krabbamein og brjóstleysi þá er víst lítið mál að ræða eyrun. Þau eru stór.

Þegar AKG fæddist þá tókum við GFS eftir þessu en vildum ekki ræða það sérstaklega. Barnið var og er með risastór eyru. Og nú eftir að hárið fékk að fjúka sé ég að þetta er allt saman frá mér komið. Ég geri mér grein fyrir að með því að ræða þetta hér munu augu þeirra, sem lesa, beinast að eyrunum mínum og ég mun fá alls konar skemmtileg komment um eyrun. Um það hvort þau séu ekki svo stór eða að fólk brosi til mín með vorkunnarglampa í augunum. Æi greyið, ekki nóg með að hún sé að berjast við krabbamein. Hún er líka með RISAstór eyru. 

Ég hef fengið ótrúlega jákvæð og góð viðbrögð við breytingunni. Fólki finnst ég vera töff. Mér finnst ég líka töff en hlakka til að fá nýtt hár, ólitað og ómengað. Þangað til er ég töffari með gleraugu, klúta, hatta, hárkollur eða hvað sem mér dettur í hug. Svo er víst svona krúnurakaðir hausar rosalega í tísku. Sjá meðfylgjandi myndir.






Monday, November 4, 2013

Leikurinn lítill/stór haus og ökuhæfni sjúklinga

Ih stóð enn eina vaktina og hafði svo ljómandi gaman af (sjá myndir af leiknum little big head). Snakk, kristall, slúður og spjall, Joe and the juice, kaffi to go og skutl á office.

Little Inga var með smá áhyggjur af því að lyfin gætu haft áhrif á ökuhæfni mína þar sem ég var næstum búin að keyra á bíl sem var lagt við hliðina á mínum. Hafði lítið með lyfin að gera. Hef takmarkaða hæfileika í bílastæðastúss. Nema hvað að við ákváðum að kíkja í kringluna og á Joe and the juice. Ég rúnta um bílastæðið og fer nálægt innganginum því samkvæmt kenningu náins ættingja eru oft laus stæði þar. Ég er að segja IH frá kenningunni og vandræðum við að leggja í stæði. Almennt. Hún tekur svona líka undir og samsinnir og segir svo að Já af öllum hennar vinkonum sé ég líklega sú sem er verst að leggja.

Saturday, November 2, 2013

Með styttra hár en Guðmundur!

Eftir taugatrekkjandi daga þar sem hárlos var að gera líf mitt leitt ákvað ég að drífa mig í að láta taka allt. Ekki svo slæmt segir fólkið mitt. Strákarnir ótrúlega jákvæðir og stuðningsríkir.