Friday, April 25, 2014

Verðmætar vinkonur

Frá því að ég greindist í lok ágúst hef ég hugsað um hvað ég er heppin. Eitt af því sem fyllir mig af þakklæti og gleði eru vinkonur mínar. Ég á margar góðar nefnilega. Reyndar held ég að ég eigi bestu vinkonur í heimi!

Ég reyni að þakka þeim fyrir stuðninginn reglulega og segja þeim hvað mér þykir vænt um þær og vináttu okkar. Þær eru á ýmsum stöðum, innsti hringurinn minn og svo eru margar í hring við hringinn og koma úr fortíð og samtíð. Sumar hef ég þekkt lengi og aðrar skemur en sæll hvað ég er heppin að eiga þær allar að.

Þegar ég var 17 ára fórum við nokkrar stelpur í eftirminnilega ferð til London. Við brölluðum ýmislegt í þessu 10 daga ferðalagi okkar (já helgarferð dugði ekki til). Þetta var fyrir tíma nets og gsm síma og við vorum að drepast úr sjálfstæði. Sumar hringdu víst ekki heim og fengu svo skilaboð frá hótel-lobbýinu að - please call home (og jafnvel þá var ekkert verið að rjúka í að svara en svo safnaði einhver klinki og lét vita að það væri í lagi með okkur). Við eyddum tíma á skrítnum stöðum. Aðallega á hótelbarnum en þar var juke-box og þar komumst við næst því að vera með okkar eigin skemmtistað þar sem við spiluðum okkar lög daginn út og inn. Þetta var náttúrlega snilld! Við fórum einn daginn í Notting Hill á festival. Þar vorum við pínku týndar í stórborginni og vissum ekkert hvert við vorum að fara eða hvaðan við vorum að koma. Við vissum þó að ekki væri gott að týnast (fyrir tíma gsm..) og mynduðum því keðju og ótrúlegt var hvað þessi keðja okkar hélst. Enn í dag eigum við til að detta í að mynda keðju t.d. á Laugaveginum á góðri stundu og bara þegar okkur dettur í hug. Þær sem ekki voru á staðnum vita vel af þessari keðju okkar enda tryggði hún að engin týndist (bara ráðist á eina í lest en hún barði þjófinn og skammaði hann fyrir að reyna að ræna hana!). Þegar ég greindist var strax hent í eina góða keðju. Keðjan er ansi löng og þvílíkt sterk og ég trúi að ekkert geti slitið hana. Elska þessa keðju.

Keðjan mín, hringurinn minn og hringarnir utan við hringinn, ninjurnar mínar, netið mitt og klettarnir sterku. Vinkonur mínar eru ninjur sem berjast eins og ljón mér við hlið. Þær eru netið sem grípur mig þegar á þarf að halda og kletturinn sem aldrei færist frá mér og ég get hallað mér að þegar ég þarf stuðning. Þið vitið hverjar þið eruð. Takk elsku vinkonur!

Minn innsti kjarnahópur af vinkonum hefur reynst mér óendanlega vel. Ég vil segja aðeins frá því hvernig þær hafa tæklað það að eiga vinkonu sem greinist með brjóstakrabbamein.
Síðustu mánuði hafa vinkonur mínar skipst á að koma með mér í lyfjagjöf. Það gerði þessar stundir að tilhlökkunarefni en ekki einhverju sem þurfti að kvíða. Þær sendu mig oft heim með mat sem einungis þurfti að hita. Þær buðu mér og mínum í mat og kaffi og í gistingu. Þær hringdu í mig daglega eftir gjöf til að sjá hvernig ég hefði það og líka í vikunum á milli. Gleymdu mér aldrei og studdu mig alltaf. Við hittumst oft og þær keyrðu mig í sveitina þegar á þurfti að halda. Þær rúntuðu með mig og ráku mig út í göngu þegar á þurfti að halda. Þær létu mig hlæja og leyfðu mér að gráta og kvarta og kveina. Þær voru og eru dásemdin ein.


Þær eru vinkonur mínar og þvílíkt sem ég er rík að eiga þær.

Hugsið ykkur hvað það er dýrmætt að eiga vinkonur og vini. Það skiptir miklu máli að eiga góð tengsl og að vera í samskiptum við þá sem manni þykir vænt um. Ég hvet ykkur til að hringja í vinkonur ykkar oftar en ekki, senda línu, senda sms og vera til staðar í gleði og sorg. Það er fátt skemmtilegra en að vera með góðum vinum. Þessar stundir eru þær sem sitja eftir í minningarbankanum og ylja manni. Ég get alltaf fundið eitthvað og hlegið þegar ég hugsa til baka um allar mínar vinkonur og okkar skemmtilegu stundir. Takk þið allar (hér eru ekki myndir af öllum en þetta er brot af því besta- þannig að nú vitið þið hvað það er mikilvægt að leyfa mér að taka myndir!!!)!

 
 

 
 
 
 
 
















 
 
 
 





Monday, April 14, 2014

Næsta mál á dagskrá

Síðustu dagar og vikur hafa verið dásamlegar. Eftir síðustu "erfiðu" meðferðina - sem var sú skásta af síðustu fjórum fagnaði ég afmælinu mínu... í ca viku! Það var alltaf eitthvað skemmtilegt á dagskrá og það var hrikalega gaman. Svo fór ég til Parísar með vinkonum mínum og átti dásamlega daga með eðalkonum þar sem við leystum öll heimsins vandamál og nutum þess að vera til. Æði!



Við stelpurnar gistum í íbúð á geðveikum stað - í 4. hverfi í lítilli göngugötu sem var full af krúttlegum litlum búðum. Þetta var draumi líkast. Mér fannst París meiriháttar skemmtileg og það var þvílíkur bónus að hafa inside information og guide með okkur. Svala (www.sveil.blogspot.com) klikkar ekki á smáatriðunum. Takk elsku Svala og þið allar fyrir meiriháttar skemmtun og að búa til minningar sem eru ómetanlegar. Dýrmætasti fjársjóðurinn.  

Heilsan er góð en eftir páska fer ég í geisla. 25 skipti - 5 vikur. Það mun ganga vel!

Sumarið er fullt af fyrirheitum. Minningarnar munu hrannast upp, ferðalög innanlands og utan með kærum vinum og alls konar skemmtilegt. Fer í herseptín á 3ja vikna fresti alveg fram í október en aukaverkanir eru vægar og ég á von á að það trufli ekki mikið hversdagsleikann, ferðalög og skemmtilegheit í sumar.

Læknirinn minn segir mér reglulega að það megi ekki sjúkdómavæða mig og hvetur mig til að gera það sem mig langar og það sem ég vil. Já og það er ég að gera! Oui.