Tuesday, December 17, 2013

Meðferðarhlé :-)

Kæri sáli!

Við Áslaug áttum yndislegan dag saman fyrir viku. Hún var með mér í löngu meðferðinni og við náðum góðu spjalli. Þvílíkt sem þessir mánudagar hafa gefið mér mikið! Í hversdagsleikanum hefur maður sjaldan tíma til að eiga gæðastundir með vinkonum sínum. Alltof sjaldan. Heppin ég. 

Við fórum í hádegismat í Hamraborg (miðja höfuðborgarsvæðisins in case you did not know this) og röltum þar um í góðum gír. Ekki slæmt að hafa sálfræðing með sér heilan dag svona korter í jól. Ættu allir að hafa aðgang að einum slíkum :-) Takk elsku sáli minn fyrir að eyða deginum með mér!



Jeiii meðferðarhlé

Nú er ég komin í meðferðarhlé. Alla mánudaga frá þeim fyrsta í október hef ég farið á LSH og fengið minn skammt af lyfjum og ég viðurkenni að ég er alveg til í þetta hlé núna. Það er tilviljun að hléið sé akkúrat um jól og áramót. Stundum leikur lífið gjörsamlega við mann.

GB spæjó

Ég fór til útlanda í síðustu viku í vinnuferð. Það var skrítið að fara í aðrar aðstæður svona korter eftir stóra lyfjagjöf og svoldið erfitt. En ég náði að hvíla mig vel á hótelinu milli þess sem ég tók þátt í fundardögum. Mér fannst skrítið að hitta fólk sem ég hef ekki séð lengi og það þekkti mig ekki og ég grínaðist með að ég væri í dulargervi. Mér leið eins og Jón spæjó á góðum degi með gleraugu og með skupluna. Í fyrsta skipti í langan tíma átti ég erfitt með að vera innan um fólk og fannst allir vera að horfa á mig. Paranoid eða? Hér vita flestir í kringum mig hvað er í gangi og ég á oftast ekki í vandræðum með að ræða þetta svona yfirborðskennt en þegar fólk veit ekki hvað er í gangi og ég sé að því bregður við að sjá mig þá fæ ég sting í hjartað og hugsa æi þarf ég nú að útskýra þetta allt enn einu sinni og það á ensku - og í útlöndum úff.

Að útskýra að ég hafi greinst með krabbamein og sjá viðbrögð sem eru full af undrun, vorkunnsemi og stundum sorg er fjandi erfitt. Ég viðurkenni það. En svo finnst mér líka áhugavert að fylgjast með fólki - hvort að það þori að tala við mig. Sæll hvað það er örugglega oft erfitt. Mitt ráð er þetta: Endilega komið og talið við mig - ég lít á mig sem læknaða - og er í fyrirbyggjandi meðferð - það gengur vonum framar og ég er enn bara ég. Endilega komið og segið mér fréttir af ykkur og gefið mér knús með gleði og kærleika í huga.

Stoð og styttur - líka í útlöndum

Ég eyddi þeim litla tíma sem ég fór af hótelinu sem yndislegri vinkonu minni frá Tyrklandi, prófessor Fusun sem er sérfræðingur í stefnumótun í náms- og starfsráðgjöf. Fusun dró mig út í göngu einn morguninn og svo fórum við saman eftir síðasta fundinn og borðuðum í downtown Vilnius. Hún var mín stoð og stytta þarna úti og ég er henni endalaust þakklát fyrir. Hún fattaði líka að ég nennti ekki að ræða veikindin endalaust og við misstum okkur í umræðum um stefnumótun í náms- og starfráðgjöf, stjórnmál í löndunum okkar og um fjölskyldur og vini.



Tuesday, December 3, 2013

Andleg næring

Stundum þarf maður á andlegri næringu að halda. Þegar maður er þreyttur, pirraður, fúll, einmana og leiður. Ég á það til að vera eitthvað af fyrrgreindu einstaka sinnum. Mjög sjaldan auðvitað eins og fjölskyldan getur góðfúslega vitnað um. En það er alveg eðlilegt að detta í drullupytt og velta sér þar um í smá stund. Þó má sú stund ekki vara lengi og fljótlega er tími til að standa upp, fara í sturtu og labba út eða hitta fólk. Það sem ég geri er t.d. að

  • fara út og labba (labba ekki langt endilega en reyni að fara smá spöl sem oftast). 
  • horfi á grínþátt - í uppáhaldi eru Modern Family, Big Bang Theory (með strákunum), New Girl og fleira vandað amerískt sjónvarspefni. Hef einnig verið þekkt fyrir að horfa á dæmalaust marga unglingaþætti (Awkward í sérstöku uppáhaldi vegna námsráðgjafans þar sem er geggjuð) og hafa gaman að.
  • hlusta á tónlist og nýjast - að búa til playlista - það er ekki lítið skemmtilegt að finna tónlist handa sjálfum sér og búa til lista. Að búa til lista er auðvitað skemmtun í sjálfu sér. Fæ sjaldan nóg af því.
  • lesa/hlusta á bækur. Hér á líka við - einfalt er gott. Ekki endilega mestu og bestu skáldsögur veraldar heldur eitthvað sem fær mig til að hlæja, flissa eða vera hrikalega spennt. Hér hafa unglinga-og ævintýrabækur sérstakan sess. Við Þóra vinkona eigum það sameiginlegt að missa okkur yfir unglingadrama í alls kyns myndum - Hunger Games, Harry Potter, Twilight. Elskum'etta allt saman. 
  • vafra um netið, fara í Candy crush, Quizup eða aðra uppbyggilega og þroskandi leiki. 
  • síðast en ekki síst að eiga í góðum samskiptum við fjölskyldu og vini. Ég er heppin að eiga ótrúlega skemmtilegt fólk í kringum mig. Börnin mín og eiginmaður geta verið hrikalega skemmtileg og fyndin. Mér finnst alltaf jafn drepfyndið þegar tveggja og hálfs árs barnið neitar að borða og heimtar að horfa á Dóru á meðan hún klípur bræður sína og urrar á foreldrana. Þetta er bráðsmellið. En án gríns þá er ekkert annað í boði en að hafa húmor fyrir þessu öllu saman. Góð samskipti með dass af góðum húmor er besta meðal í heimi. Ég nærist á því að vera með góðu fólki og ef ég er ekki með skemmtilegu fólki (ég sjálf get takmarkað skemmt mér sjálfri - þó kem ég mér stundum á óvart og á það til að hlæja ein með sjálfri mér) þá finn ég að eitthvað þarf að gera og ég hringi eitthvað eða fer á FB og leita uppi skemmtilegheit. 

Það er tóm vitleysa að eyða lífinu í vesæld og leiðindum. Lífið er of stutt! Það á að vera skemmtilegt!
Kíkið á þennan fyrirlestur hjá Eddu Björgvins um húmor og hamingju: http://www.fyrirlestrar.is/fyrirlestrar/humor-hamingja-eda-harmur/
(hluti af því að vafra um netið er að finna hvetjandi og nærandi fyrirlestra um t.d. hamingjuna, menntun (já sjúk í þá), uppeldi og jákvæðni.
Hér er myndband um starfsval og að eyða ekki tíma í það sem veitir manni ekki gleði: