Wednesday, October 30, 2013

Skemmtilegt á sterum

Fyrir og eftir meðferð tek ég stera til að halda aukverkunum niðri. Einnig tek ég ógleðislyf sem virðast vera að virka ágætlega.

Álfhildur, Bjarney Sif og Agnes hostess with the mostess!
Fór til dæmis í 3ja rétta hádegismat hjá Agnesi samstarfskonu minni (FSu) í gær og gat alveg borðað alla réttina án vandræða. Úff þetta var reyndar einn flottasti hádegismatur fyrr og síðar og því eins gott að ég gat borðað ;-) Takk elsku Agnes og kæru samstarfskonur fyrir samveruna og stuðninginn!
Súkkulaði mús með hvítu súkkulaði,
hindberjum og lakkrís.

Sterarnir hafa aukaverkanir og sumt fólk fer hátt upp. Þrífur allt hátt og lágt heima hjá sér. Fer í tryllingslega innkaupaleiðangra í Kringluna og kemur heim með alls konar óþarfa. Því miður hef ég ekki lent í þessu enn þá. Fór reyndar eftir síðast tvöfalda kúr (þeir eru á 3ja vikna fresti) og dró mömmu með mér í góðan Kringluleiðangur. Fann virkilega þörf fyrir að komast þangað. En kom ekki hlaðinn heim. Guðmundi og föður mínum til nokkrar ánægju. (note to self - á inni tryllingslega innkaupaferð).

Ég meina hvað er gamanið ef maður getur grætt aðeins á þessu?


Því miður hafa sterarnir einungis gert það að verkum að ég á erfitt með svefn en næst ætti ég stökkva fram úr og taka til í skápum eða gera eitthvað gagn. Eða ekki.

Tuesday, October 29, 2013

Brjálað að gera

Hrikalega gaman í dag í meðferðinni. Gfs kom með mér að hitta lækninn og svo voru vaktaskipti og Ásta tók við með slúðurblöð og kristal.
Elsa frænka kíkti við og þá var tekin myndasyrpa eftir serious förðunarumræður.
Nú tóku við önnur vaktaskipti og Inga Huld tók við sjúklingnum með slúður og skemmtilegheit. Það er bara gaman að þessu. Ég sótti svo strákana til parents og í dinner hjá Obbu og Ágústi á heimleið :) Heppnust í heimi. Takk.
Ásta Sóllilja kom færandi hendi
Elsa frænka kom sterk inn og passaði upp á allt væri ok hjá frænku
IH mætt í stuði!

Sunday, October 27, 2013

Við upphaf nýrrar viku

Í mínum huga byrjar vikan á mánudegi. Samt segir í rímunni góðu, sunnudagur, mánudagur og svo framvegis. Á mánudögum fer ég lyfjameðferð og fæ lyfjagjöf sem á að bjarga mér úr krabbaklóm. Það er samt sem áður ekki beint tilhlökkunarefni. Nema að á mánudögum hitti ég pottþétt einhvern sem er mér kær. Sem kemur með mér og situr hjá mér og skemmtir mér. Það er náttúrulega ómetanlegt.

Ég hef ekki bloggað mikið síðan síðast. Ég gerðist svo djörf að deila færslunni um aðgerðir strax með FB vinum mínum og Guðmundur með sínum. Viðbrögðin voru mögnuð og skemmtileg og yndisleg. Við fengum bæði öldu af skilaboðum og stuðningi sem okkur er svo dýrmætur. Það er erfitt að opinbera veikindi sín en ég vil heldur ekki að þetta sé eitthvað leyndó. Og ef skrifin skemmta einhverjum eða hvetja til dáða þá er það bónus. Það er líka stundum erfitt fyrir okkur að útskýra hvað er í gangi hjá okkur og betra að fólk sem hugsar til okkar geti fylgst með hér.

Og fyrir áhugasama þá gekk vikan vel. Ég fór í minn skammt (vinkona mín benti mér á að þetta væri svoldið dópistalegt tal hjá mér en svona er þetta bara ;-)) og átti svo góða daga á eftir. Hárið er enn á hausnum en ég er farin að huga að alls konar úrræðum til að létta mér það þegar það fer. Bjarki Freyr hefur engan sérstakan áhuga á að ég sé með kollu en hann telur að það yrði afskaplega vandræðalegt fyrir mig þegar kollan fyki af mér. Það er rökrétt hugsað hjá honum enda aldrei logn hér á holtinu góða.

Úti að labba
Í vikunni sem leið fór ég í gönguferðir daglega, hitti fullt af skemmtilegu fólki, fór í FSu og í menntamálaráðuneytið vegna vinnu minnar og átti góðar stundir með fjölskyldunni og vinum. Anna Katrín var veik og heppilegt að ég gat sinnt henni. Hún var að pinna á meðan ég var að vinna. Rímar. Sem er alltaf gott.

FSu
AKG að pinna.
Næsta vika gæti litast af lyfjum en kannski verður bara eins og síðast. Þreyta með köflum en annars nokkuð gott.



Monday, October 21, 2013

Mánudagur til meðferðar

Mamma fékk að fylgja í dag. Við ræddum um förukonur á Austfjörðum á meðan mamma prjónaði og ég lék mér í candy crush. Svo tók við æsispennandi öku- og kaffihúsaferð. Mamma kemur mér á óvart í ökuhæfni (sérstaklega þegar hún leggur í bílskýlinu en margir þekkja vel vandann við að leggja - almennt séð). En það sem truflaði mig helst var sólin - svo lág þið skiljið. Nú vill móðir mín að ég horfi á spaugstofumenn. Alþingi er í fríi vegna kjördæmaheimsókna. Svo veltum við auðvitað fyrir okkur hvar Sigmundur er. Það er efni í aðra færslu.

Thursday, October 17, 2013

Aðgerðir strax!

Fyrir einum og hálfum mánuði síðan fór ég á leitarstöðina til að láta athuga með annað brjóst mitt. Mér fannst það vera skrítið og hafði hugsað um það í nokkrar vikur og kannski mánuði. Ég var með litluna mína á brjósti fyrir rúmu ári síðan (er 2ja ára) og á einu brjósti og á þessu brjósti sem var orðið eitthvað skrítið. Mér hafði verið sagt að hugsanlega gæti brjóstið orðið stærra vegna þessa og því fór ég ekki fyrr á leitarstöðina. Ég var búin að ákveða að þetta væri stíflaður mjólkurkirtill eða eitthvað svona auðleysanlegt vandamál. Fljótlega kom annað í ljós. Það var strax ljóst að þetta skrítna brjóst þyrfti að skoða betur og mjög fljótlega í þessu ferli var mér sagt að það yrði líklega að taka brjóstið. 

Mér fannst þetta auðvitað erfitt en hugsaði sem svo að þetta væri nú bara eitt brjóst. Þreytt og svoldið slitið brjóst sem hefði svo sannarlega skilað sínu. 

Í kjölfarið á heimsókninni á leitarstöðina tóku við mjög erfiðar vikur. Rannsóknir og skannar og allt í einu var mér hent inn í annan heim. Læknaheim. Sjúklingaheim. Heim sem ég þekkti ekki og hafði í raun engan sérstakan áhuga á að kynnast. Fljótlega breyttust orðin sem voru notuð - frá því að vera staðbundnar frumubreytingar í það að vera brjóstakrabbamein sem var komið í eitlana. Ömurlegar fréttir á vikufresti og ógeðsleg bið. 

Mér var ekki bara hent í þennan heim heldur allri fjölskyldunni minni og vinum. Þau upplifðu rússíbanann með mér. Tímann þar sem ég varð að reyna að hemja og temja hugann og hugsanir sem fóru oft allt of langt. Krabbamein í mínum huga þýddi bara eitt. 

Ég fór í brjóstnám um miðjan september.
Eftir tvær nætur á sjúkrahúsi fór ég heim til foreldra mína og var þar í næstum 3 vikur á eftir. Foreldrar mínir breyttu svefnherberginu sínu í sjúkraherbergi og við tók hvíld og endurhæfing. Endurhæfing var í höndum foreldra minna, Elsu frænku og vinkonurnar skiptust á að koma til mín. Guðmundur stóð vaktina heima og fékk góða aðstoð frá tengdó og hjá öllu okkar dásamlega fólki í sveitinni. 
Ég get ekki sagt annað en að þetta hafi verið fjári erfitt á tímum. Ég með eitthvað dren hangandi utan á mér og kraftlaus og veik og áhyggjufull að bíða eftir niðurstöðum. Dagarnir liðu og við Guðmundur fórum á spítalann og fengum niðurstöður sem hræddu okkur aftur og enn. Krabbinn var þarna og var raunveruleg ógn og aggresívur andskoti. Sem betur fer eigum við góða að og þar af einn góðan vin sem er lyflæknir og gat útskýrt allt fyrir okkur og róað okkur. 

Á spítalanum fékk ég góða umönnun. Læknarnir skáru meinið burt og hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og annað starfsfólk var mér mjög gott. Daginn sem ég fór heim eftir brjóstnámið skynjaði ég álagið á spítalanum vel. Mér fannst ég ekki óörugg en ég var fegin að komast heim. Samt var ég enn löskuð og með dren og hálfóörugg með framhaldið á skurðinum og batann allan. Dagana fyrir brjóstnámið höfðu fréttir af hrikalega ástandi á spítalanum dunið á okkur. Fréttir af svöngu, þreyttu, leiðu starfsfólki sem ekki hefur tíma til að fara á klósettið og ælir af álagi. Ekki mjög traustvekjandi. Ástandið var mér mjög ofarlega í huga og þegar kæruleysislyfin voru farin að virka vel fyrir aðgerðina hvatti ég starfsfólkið áfram og sagði þeim að þau ættu skilið að fá svakalega góð laun. Man þetta vel, sem og pælingar um skurðstofuna sem tengjast klárlega starfi náms- og starfsráðgjafa, en mér fannst alveg magnað að fylgjast með þeim öllum gera sitt thing (og lét vita af því úff). Þegar ég vaknaði leið mér svoldið eins og ég hefði farið á trúnó á óheppilegum stað og tíma. Svona eins og þegar maður vaknar eftir gott partý og rifjar upp kvöldið og þar með talið trúnó við einu edrúmanneskjuna í partýinu. Pínlegt en aðallega bara fyndið!

Í einu af fyrstu viðtölunum við lækninn minn sagði hann mér að nú myndi ég heyra alls konar hryllingssögur. Jú það er rétt. Ég heyrði hryllingssögur en þær komu allar frá spítalanum sjálfum. Allir aðrir sögðu okkur frábærar sögur, hvetjandi sögur með góðan endi sögur. Elska svona sögur. Ég ætla einmitt að vera svona saga. Góð saga. 

Á tímabili var ég rosalega pirruð út í kerfið og spítalann. Mér fannst til dæmis skrítið að ég þurfti að biðja um áfallahjálp eftir eitt mesta áfallið. Að mér væri ekki boðið það strax finnst mér enn skrítið. Svo hitti ég krabbameinslækninn minn og þá leið mér betur. Mér sýnist á því sem ég hef lesið að fólk sem lendir í þessu sé mér almennt sammála. Þegar meðferð og úrræðin eru komin í ferli þá líður manni betur. Mér hefur ekki liðið illa eftir að ég hitti krabbameinslækninn minn. Hann sagði okkur þó ýmislegt sem við munum hafa í huga í framhaldinu. Til dæmis að þau hafi verið sex sem sáu um brjóstakrabbamein á Íslandi en eru núna tvö. Að ég muni þurfa að passa upp á mig sjálf og mína meðferð. Kerfið getur ekki passað upp á mig. Það hefur reynt á þetta nú þegar. Samt hef ég ekki yfir neinu að kvarta því ég vil vera meðvituð um meðferðina og allt sem er í gangi. 

Það sem situr eftir er þetta. Það þarf aðgerðir strax á Landspítalanum. Það þarf að bæta kjör og aðstæður lækna og hjúkrunarfólks. Það þarf að bæta tækjakost nú þegar. Það þarf að nást sátt um að setja þessi mál í forgang. Þeir sem veikjast eiga betra skilið en úrelt tæki og örmagna starfsfólk. Þeir sem vinna á spítalanum eiga skilið að fá að vinna við bestu mögulegu aðstæður til að ná sem bestum mögulegum árangri. Skítt með skattlækkun sem skilar okkur nánast engu nema krossi við kosningaloforð xD. Setjum heilbrigðismál í forgang. Það þarf aðgerðir strax!

Wednesday, October 16, 2013

Gleði

Í dag líður mér vel. Í dag er ég glöð. Ég bý á yndislegum stað með góðu fólki og hef nú þegar talað við nokkrar af mínum bestu vinkonum. Ég fylgdi dóttur minni út í morgun á leikskólann þar sem hún fór sæl og glöð í kjólnum sem hún valdi sér sjálf og með flétturnar sem ég fléttaði í hana Línu langsokk stæl. Ég fékk mér göngutúr um horfði heim til Eyja í dásamlega veðrinu. Kjartan Sveinn og Bjarki Freyr voru úti í frímínútum og tóku ekki eftir mér því þeir skemmtu sér svo vel.

Ég bjó um rúmin og setti í vél. Þetta veitti mér ef til vill ekki eins mikla gleði og ofantalið en einhvers konar vellíðan get ég sagt. Sense of accomplishment á ensku. Á lista dagsins er líka að ryksuga (eða biðja KS að gera það fyrir mig) og klára vinnutengt verkefni.

Gleði í núinu er mér umhugsunarefni þessa dagana. Svokölluð núvitund eða mindfulness passar vel við það sem ég er að takast á við. Að lifa hverja stund og njóta hverrar stundar. Sleppa takinu af stressi og kvíða og leiða. Leyfa þeim tilfinningum sem ég veit að gera mér lítið gagn að líða hjá og hverfa.

Ég ætla svo sannarlega að nota hverja stund og finna mér gleði hvern einasta dag. Það er mjög auðvelt en stundum þarf maður að ákveða það sem er samt auðvelt.

Hlustaði til dæmis á þennan fyrirlestur áðan og fannst ég hafa gott af:

http://www.fyrirlestrar.is/fyrirlestrar/meiri-hamingja-med-nuvitund/

Svo gleður þessi litla skotta mig líka.

Horfði heim

Sá vel heim til Eyja í morgungöngunni. Yndislegt þegar ég sé Eyjarnar mínar rísa upp úr sjónum,  svo tignarlegar og fallegar.

Monday, October 14, 2013

1001 slökunaraðferð

Þriðja meðferð. Þóra slökunarþjálfi og lífsnautnasérfræðingur. Með kristal og Tópas og skemmtisögur.

Sunday, October 13, 2013

So far so good

Á morgun fer ég aftur í lyfjagjöf. Það er vika síðan ég fékk fyrsta skammtinn minn og vikan hefur verið ágæt. Fyrir helgi fékk ég lyfjabrunn og það var svoldið mikið stand í kringum þessa fyrstu viku. Guðmundur stóð vaktina heima með ómetanlegri aðstoð frá pabba. Leikskólinn var að flytja akkúrat þessa daga sem ég fékk fyrstu skammtana og um nóg að hugsa í sveitinni. Vægast sagt.

Það er sérkennilegt að vera í burtu frá heimilinu sínu í svona langan tíma. Frá börnunum og eiginmanninum. Frá vinnu og vinum. Og allt í einu er ég bara 15 ára aftur að horfa á telly með foreldrunum og pabbi að skutlast með mig til vinkvennana. Síðan ég var 15 hefur ýmislegt breyst. Til dæmis tilkoma Alþingisrásarinnar. Móðir mín kallaði á mig einn daginn og spurði mig hvort ég ætlaði ekki að koma og horfa með sér. Ég var svolítið hissa því klukkan var bara 10.30. Um morgun. Óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi á dagskrá og við mamma komnar í feitt. Það gerist ekki meira spennandi.

Á morgun fæ ég mína lífsgjöf eins og ég hef ákveðið að líta á lyfjagjafirnar. Ég vona að vikan verði bærileg og þetta gangi áfram svona. So far so good.

Saturday, October 12, 2013

Takk elsku öll!

Ég á svo yndislegt fólk í lífi mínu. Frá því ég greindist hef ég fengið alls konar fallegar gjafir, skilaboð og símtöl. Mér þykir óendanlega vænt um þetta allt. Bækur, nammi, listaverk, dekurdót, ipad, skemmtiefni í ýmsu formi, matur og grín. Þið eruð yndisleg. Svo fékk ég handgert sjal og lukkuarmband alla leið frá Tyrklandi.
Síðast en ekki síst hef ég grætt ómetanlegar samverustundir með vinum okkar og fjölskyldu. Takk fyrir þetta allt!


Thursday, October 10, 2013

Off with the hair

Þegar ég var 18 var ég flippuð og óhrædd við breytingar. Var í London í fríi með vinkonunum og skrapp í klippingu og kom heim með stutt hár. Síðan þá hef ég jú verið með fjólublátt hár en ekki stutt. Mér var ráðlagt að klippa stutt því þegar hárið þynnist eða fer alveg þá er gott að vera búin að aðlagast aðeins.
Ég græt ekki hárið. Alveg klárt að það kemur aftur!

Voila

Wednesday, October 9, 2013

Snjórinn sigraður

Driver dagsins og samferðakona meðferðar dags 2 í lotu eitt er ekki þekkt fyrir ökuhæfni að eigin sögn náttblind og með skerta rýmisgreind, vísindalega sannað. En hún kom mér á réttan stað á réttum tíma. Obba klikkar ekki. Snjórinn var ekki bara sigraður heldur líka slúðrið. 


Svo hélt myndatakan áfram og allir sem koma með mér fá mynd :) fegrunarforrit notað eftir smekk, áhuga og þörfum. Takk Obba mín fyrir samveruna. Tíminn hefur verið svo fljótur að líða. 


Eftir meðferð fórum við og hittum Ástu á Gló. Hollt og gott og gaman saman. 
Veit ég á eftir að segja þetta oft en mikið sem ég er heppin að eiga svona góða að. Ást og friður.

Upphaf af leiðangrinum

Markmiðið er að hafa gaman saman. Við IH saman á degi 1 í meðferðarlotu 1. Við ræddum öll helstu mál, slúður og skemmtilegt. Svo fór töluverður tími í að taka myndir af okkur sjálfum og það var eins gott að við vorum einar á stofu. Say no more. Hér erum við að vinna með fegrunarforrití símanum mínum. Takk little Inga :)