Wednesday, May 21, 2014

Lífs-leikarnir í anda hungurs

Í gær fannst mér allt í einu eins og ég væri í miðjum Hungurleikunum. Eins og það væri leikjastjórnandi sem væri að henda í okkur fjölskylduna alls konar verkefnum og nú væri að duga eða drepast. Leikjastjórnandinn hóf leika í haust náttúrlega þegar hann ákvað að ég fengi þetta mein og við græjuðum það (mein fjarlægt). Næsta sem hann ákvað var að það yrði hent í leikinn myglusvepp á leikskólanum og hann var færður í burtu (frí á leikskólanum) og svo aftur færður og þessir flutningar og frí höfðu áhrif þar sem þetta fór allt fram á sama tíma og ég var að jafna mig eftir erfiðan uppskurð. Jú þetta var græjað (tengdó kom, pabbi fór á milli, sveitin lagðist á eitt og svo endaði þrautin á að leikskólinn var færður í næsta hús við okkur). Þraut sigruð. Því næst tóku við nokkrar erfiðar þrautir - lyfjagjafir í hverri einustu viku fram að jólum og veður og heilsa svona upp og ofan.
Leikjastjórnandinn (game maker) gerði alls konar til að hrista upp í okkur en við græjuðum þetta og sigruðum hverja þraut. Við fengum verðlaun sem voru góð pása yfir jól og áramót. Eftir áramót voru áskoranir á þriggja vikna fresti og leikar urðu erfiðari, veður, langvinn þreyta og átök við lyfin harðari. Hárið fór næstum alveg allt. Svo augabrúnir og augnhár (ekki að bæta það fyrir albinóann = króniskt álitin lasin). Við leystum þessa þraut með klútum, gleraugum og smekklegri málningu og jákvæðum hugsunum.
Í mars var fagnað með Parísarferð og eiginmaðurinn fékk svo verðlaun í apríl og fór til USA. Við fengum smá pásu frá leikunum. Í lok apríl héldu leikar áfram og þá var þrautin geislar á hverjum degi í 25 daga. Akstur á milli borgar og sveitar, gist í bænum eða skutl eða strætó = vesen, endalaust vesen. Strax ákvað leikjastjórnandinn að gera þetta pínku erfitt og láta mig verða þreyttari en nokkru sinni áður. Ekki að ég vilji viðurkenna að eitthvað hafi verið erfitt en sæll hvað sumir dagar hafa verið erfiðir og þreyttir. Hálfnuð í geislum var líkaminn ef til vill farinn að venjast aðeins og læknirinn sagði í vikunni að ég liti skárr út - ekki lengur eins og undin tuska! Við hjónin reyndum nefnilega að vera klók og hlustuðum á lækninn í viku 2 og ég hef hvílt mig miskunnarlaust síðan. Hvílt mig þangað til ég get ekki hvílt mig meir. Hvílt mig út í hið óendanlega leiðinlega!
Nú eru ca tvær vikur þangað til að við sigrum þessa þraut. Ababababbbb en bíðið aðeins. Gerum þetta aðeins flóknara. Hristum aðeins upp í þessu! hugsar leikjastjórnandinn með sér þegar hann horfir á mig glotta til hans sigrihrósandi. Hendum inn í leikinn veiku barni sem grætur á nóttinni og vælir á daginn. Veikindin geta líka hent sjúklinginn - bara svona til að þreyta hann aðeins meira og gera útaf við eiginmanninn! Veikindi móður og dóttur. Snilldarmúv. Svo til að klára málið þá hefur leikjastjórnandinn kastað til ógn um hlaupabólu sem gnæfir yfir og ógnar næstu þremur vikum. Shit hvað það verður dásamlegt þegar þessu hungurleika-afbrigði lýkur og við getum átt venjulegt líf og hversdags"leikarnir" taka við á ný.
Ég vil þakka fjölskyldu minni og eiginmanni kærlega fyrir að taka þátt í þessum leikum með mér. Eins og í Hungurleikunum báðum við ekki um að taka þátt en höfum sannarlega gert okkar besta til að sigra hverja þraut og munum standa uppi að lokum, sem sigurvegarar. Saman.