Friday, November 21, 2014

62 vikur

Jólin eru að koma en jólin mín koma snemma í ár. Á mánudaginn klára ég pakkann. 62 vikur af meðferð, uppskurði og geislum. Allur pakkinn. All in.

Það er skrítið að þurfa ekki að mæta á þriggja vikna fresti og fá minn skammt. Ekki lengur að skipuleggja allt út frá því hvort ég sé hress eða ekki alveg eins hress.

Á þessu rúmlega ári höfum við fjölskyldan gengið í gegnum hæðir og lægðir. Ég hef þurft á öllum mínum styrk að halda og í raun allra í kringum mig. Sem betur fer var af nógu að taka.

Haustið 2013 var nýtt skólaár að hefjast. Gummi að stýra sínum öðrum vetri í Flóaskóla. Börnin öll að fara af stað á ný, öruggari en árið áður. Ég var að halda áfram í FSu og einnig að byrja á spennandi verkefni sem ég ætlaði að sinna í fjarvinnu.

Höggið kom í lok ágúst og var þungt. Held ég sé enn að jafna mig á högginu og áfallinu sem fylgir því að fá fréttir um alvarleg veikindi. Ég heyrði í mörgum sterkum konum og frábæra dr. Örvar. Ég ákvað að taka einn dag í einu og nýta alla mína styrkleika og allar stoðir til að komast í gegnum þetta. Og koma sterkari út. Það var alltaf markmiðið.

Fyrstu vikurnar voru skrítnar og biðin og óvissan var oft lamandi. Óttinn og óróleikinn, kvíðinn og vanlíðan mikil en þess á milli var ég hress, jákvæð og bjartsýn.
Það er nokkur móment sem ég gleymi aldrei. Kvöldið áður en ég átti að hitta krabbameinslækninn minn gat ég ekki sofnað. Ég var enn að jafna mig eftir uppskurð og óþægilegar fréttir í kjölfar hans og þá "poppar upp" á FB systir vinkonu minnar sem hafði gengið í gegnum pakkann nokkru áður. Hún segir við mig að ég eigi að muna að ég sé læknuð. Nú sé búið að taka meinið og að nú sé ég læknuð en framundan sé fyrirbyggjandi meðferð. Þetta hafði enginn sagt við mig en nákvæmlega þetta sagði læknirinn minn við mig næsta dag. Þessi kona sem ég þekki ekki neitt bjargaði mér þetta kvöld. Takk!

Ég fór ótrúlega oft á Lsh í meðferðir fyrir jól í fyrra. Vikulega. Skil það ekki alveg en ég hafði val um að gera þetta öðruvísi. Mér fannst bara ganga svo vel að ég vildi ekki breyta. Það hefði náttúrlega ekki verið neitt mál að gera þetta svona nema af því að við bjuggum úti á landi. Og Gummi gat klárlega ekki komið með mér alla mánudaga í bæinn.
Þannig var vinnan hans og þannig eru störf skólastjóra. Þeir fara ekki hálfan dag í viku frá margar vikur í röð. Það er bara þannig! En þá komu vinkonur mínar og fjölskylda sterk inn. Vinkonur mínar ninjurnar mínar. Þær skiptu dögunum á milli sín og komu með mér og skemmtu mér. Við hlógum stundum svo mikið að hjúkkan mín var farin að setja mig í sérherbergi til að trufla ekki hina. Aðalfjörið var þegar við tókum myndir af okkur saman, sem var hefð. Ég myndast ekkert rosalega vel og oft þurfti margar tilraunir.

Ég reyndi að vinna eins og ég gat og þær vikur sem ég var hressari var ég oft ansi dugleg. Dugleg er orð sem maður fær ofnæmi fyrir þegar maður er duglegur. Og hetja. Ef fólk segir að ég sé hetja þá verð ég pirruð. Viðurkenni það. Mér finnst ekkert hetjulegt við að fá sjúkdóm og díla við hann. Hetjur eru fólk sem læknar fólk eins og mig! Hetjur eru læknarnir, hjúkrunarfræðingarnir og frekar aðstandendur en ég. Ég bara fékk þetta mein. Fokking fjandans mein og svo bara reyndi ég að lifa af. Ekkert hetjulegt við það. En kannski var ég pínku hetja þegar ég fór í vinnuferð daginn eftir erfiða meðferð í desember. Fór þá í ágætis flug til Vilníus með stoppi í Köben. Svo var ég á hótelinu og fundaði og svaf og hvíldi mig og svo fóru sterarnir að hætta að virka og ég varð þreyttari og svo fór ég heim. 16 tíma ferðalag frá helvíti. Eftir á að hyggja þá hefði ég þurft að skipuleggja þetta aðeins betur....

Eftir áramót var ég bara á þriggja vikna fresti fram í mars. Þá hætti ég á erfiðu meðferðunum og við tók herseptínmeðferð sem ég klára á mánudag. Allt í allt 62 vikur. Og 25 skipti af geislum síðasta vor.