Friday, October 9, 2015

#egerekkitabú

Ég er að fíla þessar Twitter herferðir um alls konar sem þarf að ræða en fáir gera. Herferðin um geðveiki og alls konar fylgikvilla þess að vera mannlegur hreyfir við mér.

Að greinast með erfiðan sjúkdóm er mikið áfall. Fólk finnur styrk víða en hjá mér var strax mikilvægt að finna mér góðan sálfræðing. Ég fer reglulega til sálfræðings sem er sjálfstætt starfandi. Ég get nýtt mér þjónustu á spítalanum en það er í ákveðið mörg skipti og hvað ef ég fíla ekki sálfræðinginn? Ég get líka fengið nokkur skipti í Ljósinu og borga ekkert fyrir það. Þjónustan er því til staðar en vandinn er sá að ég tel mikilvægt að geta valið mér sjálf við hvern ég tala. Ég fann frábæran sálfræðing og hef verið hjá sömu manneskjunni í eitt og hálft ár. Hún þekkir mig mjög vel og það sem ég er að ganga í gegnum. Hún veit í raun ALLT um mig og ég þarf ekki að útskýra neitt til að hún fatti hvað málið er. Við tölum ekki bara um veikindin en hún styður mig í öllu. Ég hlakka til að hitta hana en ég kvíði því að borga. Fyrir mér er þetta nauðsynlegur stuðningur í gegnum erfiðasta tímabil í lífi mínu og ég set því í algjöran forgang að hitta sálann minn. Nauðsyn sem er ekki niðurgreidd. Ekki ein króna. Nú hef ég verið utan vinnumarkaðar líka í nokkurn tíma og get því ekki leitað aðstoðar hjá stéttarfélagi.

Ég fer líka reglulega til sjúkraþjálfara og ég valdi mér hann utan spítala. Vegna stöðu minnar borga ég ekki mikið fyrir þær heimsóknir eða 1.300 ca í hvert skipti. Því fer ég þangað án umhugsunar og klárlega laus við allan kvíða.

Ég hugsa líka um fólk sem er í verri málum en ég. Ég á mann sem er í fullri vinnu og er sammála þessari forgangsröðun. Það er fólk sem hefur ekki efni á því að leita sér aðstoðar og það er slæmt. Kvíðinn og þunglyndið fer að hafa áhrif á fólk þannig að það hættir í skóla, hættir í vinnu, hættir að vera virkir einstaklingar í samfélaginu. Ég er sannfærð um að sálinn minn (og reyndar lyfin mín) munu hjálpa mér að fara aftur út á vinnumarkaðinn einn daginn og vera virkur samfélagsþegn í góðu andlegu jafnvægi. Vonandi fyrr en seinna.

Þessi grein er góð - réttindi en ekki forréttindi: http://www.visir.is/salfraedimedferd---rettindi-eda-forrettindi-/article/2015151008978

Tuesday, September 22, 2015

Lífið maður

Það voru dásamlegar stundir í lok nóvember 2014 þegar ég kláraði síðasta Herseptín skammtinn minn. Rúmlega árs baráttu var lokið! Vei vei. Við fjölskyldan áttum yndisleg jól og ég beið spennt eftir að hversdagsleikinn yfirtæki líf mitt. Ég starfaði við stefnumótun fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið til 1. febrúar en þá fór ég í endurhæfingu af fullum krafti. En krafturinn var ekki alveg eins og ég hafði hugsað mér. Lítil eftirfylgni var með mér og það endaði þannig að Guðmundur hafði samband við spítalann í febrúar/mars vegna þess að við vorum með áhyggjur af hinu og þessu. Því miður voru þessar áhyggjur á rökum reistar og í lok mars kom í ljós að meinið var komið aftur og ég ekki meinlaus lengur.

Það var eins og gefur að skilja mikið áfall. Fyrst um sinn héldum við þessu fyrir okkur og ég hafði ekki eins mikla þörf fyrir að tjá mig um þessa breyttu stefnu svona opinberlega, eins og að skrifa á þetta blogg. Verkefnið sem átti að vera tímabundið var það ekki lengur og það var ólýsanlega mikið högg. Óvissan var hrikaleg og mitt í verkföllum og gríðarlega neikvæðri umræðu um heilbrigðiskerfið getur hver sem er skilið að þetta var erfitt. Áreitið úr fjölmiðlum ofan á áfallið að greinast aftur og þurfa að labba inn á 11B og finna reiðina og pirringinn í loftinu (fékk samt alltaf frábæra þjónustu og ég dýrka hjúkrunarfræðinginn minn og aðrar sem þarna starfa). Æi ég vildi bara óska að þessir hlutir væru í lagi. Allra vegna.


Tíminn líður hratt og nú vitum við að lyfin sem ég er að fá eru að virka. Ég var fjórða konan á Íslandi að fá lyf sem á að virka á þessi mein og ég er gríðarlega þakklát lækninum mínum fyrir að berjast fyrir því að við fáum bestu lyfin sem erum í þessari baráttu. Svo kom dr. Örvar okkar heim aftur eftir námið sitt í krabbameinslækningum og það er sko lúxus að geta leitað til hans ef eitthvað er.

Þegar ég greindist aftur fékk ég góð ráð frá mörgum. Ein vinkona sagði mér að hugsa um þetta sem seinni helming í erfiðum fótboltaleik og ég hef kosið að líta á þetta þannig. Liðið mitt er það allra besta og ég sé stuðningsnetið fyrir mér sem lið á fótboltavelli. Þar eru aðalmenn og varamenn og svo peppliðið á hliðarlínunni. Besta lið í heimi sem spilar í úrvalsdeild! :-)

Ég er búin að fara núna átta sinnum í þessa töfralyfjablöndu. Ég viðurkenni að ég á erfitt með treysta. Treysta líkama mínum sem mér finnst hafa brugðist en samt er hann eiturharður og þolir þessa meðferð ótrúlega miðað við allt sem á undan hefur gengið. Svo er það að treysta kerfinu. Það er áskorun líka. Einnig finn ég fyrir vaxandi þreytu, líkamlegri og andlegri og geri mitt besta að díla við það. Ég nýti mér það sem hentar mér best og nú þegar rútínan er byrjuð hjá börnunum á ég meiri séns í endurhæfingunni. Þreytan er samt svo mikil að stundum stoppar allt hjá mér og þá er ég ótrúlega ósátt við allt og alla og dear lord, grey Gummi minn og fjölskyldan öll.


Við fjölskyldan í Lindasmáranum reynum að halda öllu í sem eðlilegasta horfi og krakkarnir eru duglegust í heimi. Tala líka ekki um Guðmund sem hefur verið mér mikill styrkur en það er ótrúlega mikið lagt á alla í kringum mig, tja og mig. En saman komumst við í gegnum þetta og meinið og meðferðirnar eru enn á ný fylgifiskur í okkar lífi. Hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það eru margir sjúklingar þarna úti sem þurfa á reglulegri meðferð að halda við hinum og þessum kvillum og læra að lifa með því. Það munum við líka gera :-).










Friday, November 21, 2014

62 vikur

Jólin eru að koma en jólin mín koma snemma í ár. Á mánudaginn klára ég pakkann. 62 vikur af meðferð, uppskurði og geislum. Allur pakkinn. All in.

Það er skrítið að þurfa ekki að mæta á þriggja vikna fresti og fá minn skammt. Ekki lengur að skipuleggja allt út frá því hvort ég sé hress eða ekki alveg eins hress.

Á þessu rúmlega ári höfum við fjölskyldan gengið í gegnum hæðir og lægðir. Ég hef þurft á öllum mínum styrk að halda og í raun allra í kringum mig. Sem betur fer var af nógu að taka.

Haustið 2013 var nýtt skólaár að hefjast. Gummi að stýra sínum öðrum vetri í Flóaskóla. Börnin öll að fara af stað á ný, öruggari en árið áður. Ég var að halda áfram í FSu og einnig að byrja á spennandi verkefni sem ég ætlaði að sinna í fjarvinnu.

Höggið kom í lok ágúst og var þungt. Held ég sé enn að jafna mig á högginu og áfallinu sem fylgir því að fá fréttir um alvarleg veikindi. Ég heyrði í mörgum sterkum konum og frábæra dr. Örvar. Ég ákvað að taka einn dag í einu og nýta alla mína styrkleika og allar stoðir til að komast í gegnum þetta. Og koma sterkari út. Það var alltaf markmiðið.

Fyrstu vikurnar voru skrítnar og biðin og óvissan var oft lamandi. Óttinn og óróleikinn, kvíðinn og vanlíðan mikil en þess á milli var ég hress, jákvæð og bjartsýn.
Það er nokkur móment sem ég gleymi aldrei. Kvöldið áður en ég átti að hitta krabbameinslækninn minn gat ég ekki sofnað. Ég var enn að jafna mig eftir uppskurð og óþægilegar fréttir í kjölfar hans og þá "poppar upp" á FB systir vinkonu minnar sem hafði gengið í gegnum pakkann nokkru áður. Hún segir við mig að ég eigi að muna að ég sé læknuð. Nú sé búið að taka meinið og að nú sé ég læknuð en framundan sé fyrirbyggjandi meðferð. Þetta hafði enginn sagt við mig en nákvæmlega þetta sagði læknirinn minn við mig næsta dag. Þessi kona sem ég þekki ekki neitt bjargaði mér þetta kvöld. Takk!

Ég fór ótrúlega oft á Lsh í meðferðir fyrir jól í fyrra. Vikulega. Skil það ekki alveg en ég hafði val um að gera þetta öðruvísi. Mér fannst bara ganga svo vel að ég vildi ekki breyta. Það hefði náttúrlega ekki verið neitt mál að gera þetta svona nema af því að við bjuggum úti á landi. Og Gummi gat klárlega ekki komið með mér alla mánudaga í bæinn.
Þannig var vinnan hans og þannig eru störf skólastjóra. Þeir fara ekki hálfan dag í viku frá margar vikur í röð. Það er bara þannig! En þá komu vinkonur mínar og fjölskylda sterk inn. Vinkonur mínar ninjurnar mínar. Þær skiptu dögunum á milli sín og komu með mér og skemmtu mér. Við hlógum stundum svo mikið að hjúkkan mín var farin að setja mig í sérherbergi til að trufla ekki hina. Aðalfjörið var þegar við tókum myndir af okkur saman, sem var hefð. Ég myndast ekkert rosalega vel og oft þurfti margar tilraunir.

Ég reyndi að vinna eins og ég gat og þær vikur sem ég var hressari var ég oft ansi dugleg. Dugleg er orð sem maður fær ofnæmi fyrir þegar maður er duglegur. Og hetja. Ef fólk segir að ég sé hetja þá verð ég pirruð. Viðurkenni það. Mér finnst ekkert hetjulegt við að fá sjúkdóm og díla við hann. Hetjur eru fólk sem læknar fólk eins og mig! Hetjur eru læknarnir, hjúkrunarfræðingarnir og frekar aðstandendur en ég. Ég bara fékk þetta mein. Fokking fjandans mein og svo bara reyndi ég að lifa af. Ekkert hetjulegt við það. En kannski var ég pínku hetja þegar ég fór í vinnuferð daginn eftir erfiða meðferð í desember. Fór þá í ágætis flug til Vilníus með stoppi í Köben. Svo var ég á hótelinu og fundaði og svaf og hvíldi mig og svo fóru sterarnir að hætta að virka og ég varð þreyttari og svo fór ég heim. 16 tíma ferðalag frá helvíti. Eftir á að hyggja þá hefði ég þurft að skipuleggja þetta aðeins betur....

Eftir áramót var ég bara á þriggja vikna fresti fram í mars. Þá hætti ég á erfiðu meðferðunum og við tók herseptínmeðferð sem ég klára á mánudag. Allt í allt 62 vikur. Og 25 skipti af geislum síðasta vor.

Monday, October 27, 2014

Stöndum saman

Ég bíð eftir greinum, bloggum og undirskriftarlistum þar sem þjóðin öll heitir heilbrigðiskerfinu stuðningi. Enn frekar bíð ég eftir aðgerðum stjórnvalda til að lækna og laga ástandið sem hefur náð nýjum lægðum með verkfalli lækna. Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að styðja betur við stoðir samfélags sem kennir sig við velferð.
Ég vil ekki vera reið og bitur enda hentar mér betur að vera jákvæð og hress. En ég skil ekki hvernig hægt er að tala um viðsnúning í efnahagsmálum okkar og lækka skatta á sjónvörp en hækka matarskatt? Ég skil ekki hver biður um lækkun á tekjuskatti þegar augljóst virðist vera að enn vantar mikið fé til að styrkja grunnstoðir samfélagsins. Megum við segja nei takk? Nei takk ég vil borga sama skatt, en ég vil að þið lagið ástandið í heilbrigðiskerfinu í staðinn? Nei takk mig vantar ekki ódýrara stöff, en það vantar nýjustu lyfin fyrir krabbameinssjúklinga og lækna til að sinna þeim. Nei takk, ekki leiðrétta lánin mín en setjið þetta fjármagn í heilbrigðiskerfið sem á að vera í fremstu röð en er að ystu þolmörkum komið. Ég á ekki að þurfa að segja nei takk við forgangsröðun stjórnvalda. Forgangsröðunin á að vera í lagi og okkur öllum í hag.
Ef við höfum ekki heilbrigðiskerfi sem virkar og grunnstoðir sem gera sitt gagn þá skiptir ekki máli hvaða prósenta tekjuskatturinn er, því við verðum afskaplega fátæk þjóð. 
Þjóðarsátt strax, styðjum lækna og heilbrigðiskerfið! 

Tuesday, October 21, 2014

Að opna sál sína

Það er ekkert grín að vera með opið blogg um persónuleg mál. Sumum þykir sjálfsagt að deila með öðrum. Öllu sem þau gera. Mér þykir vænt um þetta fólk og þykir vænt um sjálfa mig, sem vill deila með öðrum. En stundum fíla ég þetta ekki. Mér finnst óþægilegt að hugsa til þess að ALLIR viti hvað ég er að hugsa og gera. Hvað kemur það þeim við? Hvað er ég að gera að kalla á þessu athygli? Athyglissjúka ég... Skamm.

En fólkið sem þekkir mig best veit að ég er ekki athyglissjúk. Ég er deilari. Þegar Kjartan Sveinn fæddist þá skrifaði ég um hann. Á hverjum degi. Oft á dag. Þetta var fyrir tíma snapchat, instagram og Facebook. Mér fannst mikilvægt að skrifa mikið um hann og okkur því ég vissi að ég er gleymin en langar að muna. Hvert einasta smáatriði. Þess vegna var ég með massíft dæmi í gangi á Barnalandi þar sem ég skrifaði og skrifaði. Um það að vera móðir og um barnið og um Guðmund. Svona þegar ég hugsa til baka þá verð er ég pínku vandræðaleg en líka mjög þakklát. Ég á heimildir um mig og okkur, hvað ég var að hugsa og gera í alveg nokkur ár! En aumingja hin börnin sem eru mér alveg jafn merkileg og mögnuð. Þau fá ekkert svona massíft blogg. Stundum snap. Stundum myndband á instagram eða Facebook.

Í veikindunum og í þessari rússíbanaferð þá hef ég oft hugsað um að skrifa meira en hugsa líka hvað það er skrítið og óþægilegt að alls konar fólk sé að lesa það sem ég skrifa. Meta það og gagnrýna. En mér líður betur þegar ég skrifa niður það sem ég er að hugsa. Ég er fyrst og fremst að gera þetta fyrir sjálfa mig. Ég gæti því haft þetta lokað svæði en hugsa svo aðeins lengra og um fólkið mitt og fólk sem hefur gagn eða gaman að því að lesa það sem ég skrifa og hugsa bara æi þetta er bara alveg ok. Ég er ok. Þetta má alveg.

Núna vildi ég óska að ég hefði haldið áfram geðveikislegum skrifum um hvert einasta smáatriði (nei kannski ekki svona smáatriði en aðalatriðin) í lífi okkar fjölskyldunnar. Mér finnst ég ekki hafa tíma til að skrifa og skrá hvað lífið er magnað. Hvað börnin eru ólík og dásamleg. Hvað hversdagurinn tekur mikinn tíma og orku en hvað hann gefur líka mikið. Hvað það er gott að vera heima hjá sér. Hvað það er dásamlegt að eiga vini og að allir eigi sína vini til að leika við. Hvað það er mikilvægt að rækta vinskap og hvað það er mikilvægt að vera saman og hafa gaman.

Anna Katrín: Litla prinsessan sem átti aldrei að vera kölluð prinsessa en elskar bleikt og prinsessur (þrátt fyrir metnaðarfullar tilraunir til að minnka þann áhrifaþátt ungra stúlkna). Prinsessan sem er líka sterk eins og Lína, dugleg eins og Dóra og klár í hausnum sínum (línan sem við segjum mjög oft). Hún reynir á þessi elska en mikið gefur hún okkur líka mikla gleði. Dansar og syngur hátt. Kann ótrúlega margt og er ákveðin og veit nákvæmlega hvað hún vill. Rosaleg leiðtogahæfni. Segi ekki meir.

Bjarki Freyr: Elsku miðjan okkar sem er endalaust duglegur, flottur og klár. Stríðnispúkinn með ljúfa viðmótið. Lausnarmiðaði drengurinn okkar sem saknar enn leikskólans þó hann sé hættur að leika sér (að eigin sögn). Tölvuleikjakallinn sem æfir fótbolta og er með keppnisskap sem er langt frá mínum skilningi. Stundum þarf ég að setja mig í stellingar til að ná til hans því hann er ólíkur mér en það er sko allt í lagi og eiginlega frábært. Hvaðan hann fær keppnisskapið er enn óvíst.

Kjartan Sveinn: Alltaf svo sjálfum sér líkur. Ljúfur, klár og skemmtilegur. Góður vinur. Bóksjúkur og svo mikill pælari. Hann er svo oft einhvers staðar annars staðar og ég væri alltaf til í að vera þar með honum. Elsta barnið sem hefur endalausa þolinmæði gagnvart systkinum sínum og svo gott viðmót og lífsviðhorf. Hann er frábær fyrirmynd fyrir okkur öll.

Ég elska þessi börn og er svo heppin að fá að vera með þeim á hverjum degi.

Thursday, August 14, 2014

Megi hversdagurinn yfirtaka líf þitt að nýju mín kæra

Megi hversdagurinn yfirtaka líf þitt að nýju mín kæra stóð í bréfi til mín sem ég fékk gegnum tölvupóst frá einni af mínum frábæru fyrirmyndum í lífinu. Hún sló þarna naglann á höfuðið. Það er svo dásamlegt að eiga við hversdagsleikann og á þessum árstíma eru flestir farnir að þrá rútínu á ný. Allavega þeir sem hafa verið með börnum heima í fríi í 8-10 vikur!

Við höfum átt viðburðarríkt og gott sumar. Við fórum í útilegur, til Vestmannaeyja, Þýskalands og á skátamót á Akureyri. Við fluttum aftur í Kópavoginn fyrir ca 2 vikum síðan og erum að lenda eftir það allt. Ég kláraði geisla í byrjun júní, fór í vinnuferð til Króatíu stuttu seinna (sem gekk vel fyrir utan hitann sem var að drepa mig!!! en það er ekkert nýtt ;-)) og svo fórum við fjölskyldan til Þýskalands og hittum góða vini og gerðum margt skemmtilegt saman. Ég fæ enn lyf á 3ja vikna fresti en lyfið er ekki eiginlegt krabbameinslyf og hefur mun minni aukaverkanir en hin. Verð áfram að fá lyf fram í desember. Hárið mun vaxa áfram (reyndar aðeins of hægt fyrir minn smekk en hnausþykkt er það og líkist helst teppi. Gömlu íslensku músarlituðu teppi!!! hehe).

Þegar við tókum ákvörðun að flytja vógu veikindin mín þar þungt. Við höfðum það rosalega gott í sveitinni og eigum yndislegar minningar og dásamlega vini sem við ætlum að vera dugleg að halda tengslum við. Við vonum að þessi ákvörðun muni létta aðeins á okkur, álagi og streitu sem fylgir því að keyra til dæmis til læknis og í lyfin. Strákarnir hafa meira við að vera og í hverfinu okkur er stutt í tómstundir og alla þjónustu en samt stutt í falleg göngusvæði og náttúruna. Við erum alsæl með það. 

Það fylgir alltaf kvíði og óöryggi að fara í nýjar aðstæður. En þannig vex maður líka og þroskast. Við þroskuðumst heilan helling á dvölinni í sveitinni og einnig núna aftur þegar við þurfum að takast á við alls konar nýjar áskoranir. Veikindin mín settu allt á hvolf í lífi okkar og nú er að verða komið ár frá því að ég greindist. Ég hef engan sérstakan áhuga á að rifja þá daga upp enda voru þeir hrikalega erfiðir. Ég vil frekar horfa fram á við með jákvæðum huga og lifa sem mest í núinu og segi því eins og þessi afskaplega vitra og yndislega samstarfskona og vinkona mín: megi hversdagurinn yfirtaka líf þitt!



Wednesday, May 21, 2014

Lífs-leikarnir í anda hungurs

Í gær fannst mér allt í einu eins og ég væri í miðjum Hungurleikunum. Eins og það væri leikjastjórnandi sem væri að henda í okkur fjölskylduna alls konar verkefnum og nú væri að duga eða drepast. Leikjastjórnandinn hóf leika í haust náttúrlega þegar hann ákvað að ég fengi þetta mein og við græjuðum það (mein fjarlægt). Næsta sem hann ákvað var að það yrði hent í leikinn myglusvepp á leikskólanum og hann var færður í burtu (frí á leikskólanum) og svo aftur færður og þessir flutningar og frí höfðu áhrif þar sem þetta fór allt fram á sama tíma og ég var að jafna mig eftir erfiðan uppskurð. Jú þetta var græjað (tengdó kom, pabbi fór á milli, sveitin lagðist á eitt og svo endaði þrautin á að leikskólinn var færður í næsta hús við okkur). Þraut sigruð. Því næst tóku við nokkrar erfiðar þrautir - lyfjagjafir í hverri einustu viku fram að jólum og veður og heilsa svona upp og ofan.
Leikjastjórnandinn (game maker) gerði alls konar til að hrista upp í okkur en við græjuðum þetta og sigruðum hverja þraut. Við fengum verðlaun sem voru góð pása yfir jól og áramót. Eftir áramót voru áskoranir á þriggja vikna fresti og leikar urðu erfiðari, veður, langvinn þreyta og átök við lyfin harðari. Hárið fór næstum alveg allt. Svo augabrúnir og augnhár (ekki að bæta það fyrir albinóann = króniskt álitin lasin). Við leystum þessa þraut með klútum, gleraugum og smekklegri málningu og jákvæðum hugsunum.
Í mars var fagnað með Parísarferð og eiginmaðurinn fékk svo verðlaun í apríl og fór til USA. Við fengum smá pásu frá leikunum. Í lok apríl héldu leikar áfram og þá var þrautin geislar á hverjum degi í 25 daga. Akstur á milli borgar og sveitar, gist í bænum eða skutl eða strætó = vesen, endalaust vesen. Strax ákvað leikjastjórnandinn að gera þetta pínku erfitt og láta mig verða þreyttari en nokkru sinni áður. Ekki að ég vilji viðurkenna að eitthvað hafi verið erfitt en sæll hvað sumir dagar hafa verið erfiðir og þreyttir. Hálfnuð í geislum var líkaminn ef til vill farinn að venjast aðeins og læknirinn sagði í vikunni að ég liti skárr út - ekki lengur eins og undin tuska! Við hjónin reyndum nefnilega að vera klók og hlustuðum á lækninn í viku 2 og ég hef hvílt mig miskunnarlaust síðan. Hvílt mig þangað til ég get ekki hvílt mig meir. Hvílt mig út í hið óendanlega leiðinlega!
Nú eru ca tvær vikur þangað til að við sigrum þessa þraut. Ababababbbb en bíðið aðeins. Gerum þetta aðeins flóknara. Hristum aðeins upp í þessu! hugsar leikjastjórnandinn með sér þegar hann horfir á mig glotta til hans sigrihrósandi. Hendum inn í leikinn veiku barni sem grætur á nóttinni og vælir á daginn. Veikindin geta líka hent sjúklinginn - bara svona til að þreyta hann aðeins meira og gera útaf við eiginmanninn! Veikindi móður og dóttur. Snilldarmúv. Svo til að klára málið þá hefur leikjastjórnandinn kastað til ógn um hlaupabólu sem gnæfir yfir og ógnar næstu þremur vikum. Shit hvað það verður dásamlegt þegar þessu hungurleika-afbrigði lýkur og við getum átt venjulegt líf og hversdags"leikarnir" taka við á ný.
Ég vil þakka fjölskyldu minni og eiginmanni kærlega fyrir að taka þátt í þessum leikum með mér. Eins og í Hungurleikunum báðum við ekki um að taka þátt en höfum sannarlega gert okkar besta til að sigra hverja þraut og munum standa uppi að lokum, sem sigurvegarar. Saman.