Monday, January 13, 2014

Kynslóðin sem deilir

Ég er af þeirri kynslóð sem deilir. Deilir öllu eða mjög mörgu með öðrum í gegnum Facebook eða aðra samskiptamiðla. Lengi hélt ég úti bloggi sem var öllum aðgengilegt og þar skrifaði ég frjálslega um líf mitt og fjölskyldunnar, skoðanir og hegðun. Misgáfulegt auðvitað en mér finnst gaman að skrifa og greinilega voðalega gaman að skrifa um sjálfa mig! Fyrstu bloggin voru um hvernig það var að vera nýbökuð móðir með fyrsta barn. Ef barnið prumpaði var komin færsla.

Ég féll fyrir Facebook og sérstaklega þegar ég var búin að finna gamlar vinkonur frá tíma mínum í USA þegar ég var 11 ára og svo fann ég "fjölskylduna" mína sem ég var au-pair hjá í USA þegar ég var 16 ára. Við fylgjumst með hvort öðru úr fjarlægð og það er notaleg tilfinning að týna ekki fólki alveg þó maður sé ekki í daglegum samskiptum.
Ég sé enn óvíræða kosti Facebook og ég finn til dæmis gríðarlegan stuðning þar og viðurkenni að það fer um mig sæluhrollur þegar like-in eru komin í tveggja stafa tölu! (nei djók). En án gríns þá er voða notalegt að sjá stuðninginn og finna hann og fá skilaboð en FB vinir senda mér oft kveðju og láta mig vita að þeir eru að hugsa til mín og mér finnst það gott. Mér sjálfri hefur fundist þægilegt að hafa samskipti í gegnum FB og þegar maður vill sýna öðrum stuðning án þess að vera í þannig tengslum að geta mætt til viðkomandi, þá er þetta bjútifúl dæmi.

Á þessu bloggi hef ég deilt sögu minni og reynt að hafa það í jákvæðum og léttum gír. Enda þoli ég illa drama og grátur - sérstaklega þegar það snýr að mér. Ég sjálf á náttúrlega til að fara í dramakast og gráta en það geri ég bara fyrir fáa útvalda (aumingja kallinn minn ;-)). Oftast líður mér vel og mér finnst mikilvægt að þeir sem lesa þetta blogg finni það. Það er ekkert - greyið ég - þvílík örlög - í gangi. Ég er ekki að taka þetta á hnefanum (held ég) heldur er ég bara jarðbundin manneskja sem sæki mína hjálp þar sem ég finn hana. Bjargráðin eru víða - fyrir mig er það að skrifa til dæmis um reynsluna opinskátt og deila með öðrum og halda þeim sem þykir vænt um mig upplýstum á einfaldan hátt. Það er þreytandi fyrir alla sem standa mér nærri (og mig) að þurfa að svara spurningum um heilsu mína daginn út og inn og þægilegt að benda á bloggið.

Kynslóðin sem deilir fær oft skamm í hattinn og ýmsir hneykslast á þörf okkar til að deila öllu og engu með alheiminum. Stundum böggast ég líka en mér þykir mér vænt um FB-vini mína og því samgleðst ég þegar þeir eignast börn, gifta sig, útskrifast, elda fallegan og hollan mat, fara út að hlaupa, fara í bæinn og til útlanda, eiga góðar stundir með fjölskyldunni og svo framvegis. Oft lærir maður af þessum færslum og þær minna mann á hvað lífið er skemmtilegt og hvað við erum ólík en einstök.

Ég ætla að halda áfram að deila með heiminum því sem mig langar til. Þessum leiðangri mínum gegnum læknavísindin og að heilsu. Stundum efast ég um að ég sé að gera rétt og hugsa að fólk telji þetta einum of mikið af upplýsingum um mittt prívatlíf en miklu oftar hugsa ég ekkert um hvað öðrum finnst heldur skrifa - fyrir mig og þá sem mér þykir vænt um. Kærleikskveðja og knús.

GB sem deilir.

Friday, January 10, 2014

Fjölskylduferð á Lsh

Loksins fékk eiginmaður minn að fylgja mér í lyfjagjöf. Hann hefur oftast verið með mér að hitta lækninn en núna fékk hann að vera með í gjöf. Strákarnir og pabbi komu líka við og Elsa frænka.

Þetta var mjög góð stund og gott fyrir strákana að fá að koma og sjá hvað fer fram í þessari margumtöluðu lyfjagjöf og einni af svo mörgum dularfullum ferðum til Reykjavíkur. Guðmundur náði í vatn, gos og mat handa mér og sat hjá mér hress. En þar sem við erum saman 24/7 var ekki eins mikið slúður, spjall og stuð eins og þegar stelpurnar hafa fylgt mér (sorry elsku eiginmaður - þetta verður bara að fá að koma fram). Þær leggja mikinn metnað í að skemmta mér og þegar ég reyndi að útskýra það fyrir GFS þá kom það ekki vel út. Mér fannst samt æði að hafa hann og hann skemmtir mér alla aðra daga og það er náttúrlega mikilvægast í heimi. Gaman saman eru einkunnarorð fjölskyldunnar og eftir því í hvernig tón þetta er sagt má lesa heilan helling úr þeim. GAMAN SAMAN með reiði en ákveðni (hefur án gríns gerst) kallar ekki fram sömu viðbrögð og gaman saman í hressum tón. Þetta þekkja foreldrar sem vilja svo mikið hafa gaman saman og segja börnunum það sem ef til vill vilja bara gera eitthvað allt annað þá stundina. Þetta var dágóður útúrdúr. Aftur í alvöruna.

Mér leið mjög illa þennan dag eftir að ég var komin heim til parents. En ég náði að sofna og vaknaði í þokkalegu ástandi. Niðurstaðan er því sú að ef þetta er það versta - hálfur dagur af mikilli vanlíðan - þá fer ég létt með það og vorkenni mér ekki baun (ekki nema smá þegar mér líður sem verst). Það var óvissan um hvernig og hve lengi vanlíðanin myndi stafa og nú veit ég það og get undirbúið mig fyrir næstu gjöf. (1/4)

Ég segi sjálfri mér og öðrum reglulega að muna að ég er læknuð! Meinið var skorið burt og nú er ég í fyrirbyggjandi meðferð. Það er bjart framundan og góðar stundir.

Gleðilegt nýtt ár!

Vá hvað ég var glöð þegar ég sá töluna 2014 í sjónvarpinu á gamlárskvöld. Ég skrifaði smá þakklætispistil á Facebook og það nægir samt engan veginn að lýsa hversu þakklát ég er í raun. Þakklát fyrir lífið, fjölskylduna og vini mína. Ágætt að þetta birtist hér líka.


Gleðilegt nýtt ár kæru vinir! 
Ég get ekki sagt að ég kveðji árið 2013 með söknuði enda hefur það verið það erfiðasta í lífi míni hingað til. En það hefur líka verið dásamlegt og lærdómsríkt. Ég er óendanlega þakklát fyrir allt góða fólkið í kringum mig, fjölskyldu og vini. Fjölskyldan hefur staðið með mér 100% og vinir nær og fjær umkringt okkur af ást, hlýju og baráttuanda. Vinkonur mínar hafa komið með mér vikulega í lyfjagjafir og oft á undan höfum við hist í lunch og átt góðar stundir saman. Þessar stundir eru mér ómetanlegar. Þeim tókst að láta mánudagana verða tilhlökkunarefni - og það er ekki einfalt í þessari stöðu. Takk elsku bestustu! 
Vinir okkar í sveitinni hafa umvafið okkur með hlýju og endalausum stuðningi sem við fáum seint fullþakkað. Gamlar og góðar vinkonur og vinir hafa sent mér kveðjur og gjafir og ég fæ tár í augun við að hugsa um allt þetta góða fólk sem ég hef kynnst í gegnum árin. Svo eigum við GFS besta samstarfsfólk í heimi sem hefur sýnt okkur þolinmæði og skilning. Takk þið öll fyrir að hugsa til mín og okkar, og fyrir að vera til staðar. Endalaust mikið takk fyrir allt  

Næsta ár verður ár sigra og skemmtilegra stunda. Það er ekkert annað í boði! Megi árið 2014 verða ykkur öllum gæfuríkt og gleðilegt og munið að njóta hverrar stundar. Verið góð við hvort annað - og ykkur sjálf! xoxo.