Vá hvað ég var glöð þegar ég sá töluna 2014 í sjónvarpinu á gamlárskvöld. Ég skrifaði smá þakklætispistil á Facebook og það nægir samt engan veginn að lýsa hversu þakklát ég er í raun. Þakklát fyrir lífið, fjölskylduna og vini mína. Ágætt að þetta birtist hér líka.
Gleðilegt nýtt ár kæru vinir!
Ég get ekki sagt að ég kveðji árið 2013 með söknuði enda hefur það verið það erfiðasta í lífi míni hingað til. En það hefur líka verið dásamlegt og lærdómsríkt. Ég er óendanlega þakklát fyrir allt góða fólkið í kringum mig, fjölskyldu og vini. Fjölskyldan hefur staðið með mér 100% og vinir nær og fjær umkringt okkur af ást, hlýju og baráttuanda. Vinkonur mínar hafa komið með mér vikulega í lyfjagjafir og oft á undan höfum við hist í lunch og átt góðar stundir saman. Þessar stundir eru mér ómetanlegar. Þeim tókst að láta mánudagana verða tilhlökkunarefni - og það er ekki einfalt í þessari stöðu. Takk elsku bestustu!
Vinir okkar í sveitinni hafa umvafið okkur með hlýju og endalausum stuðningi sem við fáum seint fullþakkað. Gamlar og góðar vinkonur og vinir hafa sent mér kveðjur og gjafir og ég fæ tár í augun við að hugsa um allt þetta góða fólk sem ég hef kynnst í gegnum árin. Svo eigum við GFS besta samstarfsfólk í heimi sem hefur sýnt okkur þolinmæði og skilning. Takk þið öll fyrir að hugsa til mín og okkar, og fyrir að vera til staðar. Endalaust mikið takk fyrir allt
Næsta ár verður ár sigra og skemmtilegra stunda. Það er ekkert annað í boði! Megi árið 2014 verða ykkur öllum gæfuríkt og gleðilegt og munið að njóta hverrar stundar. Verið góð við hvort annað - og ykkur sjálf! xoxo.
No comments:
Post a Comment