Monday, January 13, 2014

Kynslóðin sem deilir

Ég er af þeirri kynslóð sem deilir. Deilir öllu eða mjög mörgu með öðrum í gegnum Facebook eða aðra samskiptamiðla. Lengi hélt ég úti bloggi sem var öllum aðgengilegt og þar skrifaði ég frjálslega um líf mitt og fjölskyldunnar, skoðanir og hegðun. Misgáfulegt auðvitað en mér finnst gaman að skrifa og greinilega voðalega gaman að skrifa um sjálfa mig! Fyrstu bloggin voru um hvernig það var að vera nýbökuð móðir með fyrsta barn. Ef barnið prumpaði var komin færsla.

Ég féll fyrir Facebook og sérstaklega þegar ég var búin að finna gamlar vinkonur frá tíma mínum í USA þegar ég var 11 ára og svo fann ég "fjölskylduna" mína sem ég var au-pair hjá í USA þegar ég var 16 ára. Við fylgjumst með hvort öðru úr fjarlægð og það er notaleg tilfinning að týna ekki fólki alveg þó maður sé ekki í daglegum samskiptum.
Ég sé enn óvíræða kosti Facebook og ég finn til dæmis gríðarlegan stuðning þar og viðurkenni að það fer um mig sæluhrollur þegar like-in eru komin í tveggja stafa tölu! (nei djók). En án gríns þá er voða notalegt að sjá stuðninginn og finna hann og fá skilaboð en FB vinir senda mér oft kveðju og láta mig vita að þeir eru að hugsa til mín og mér finnst það gott. Mér sjálfri hefur fundist þægilegt að hafa samskipti í gegnum FB og þegar maður vill sýna öðrum stuðning án þess að vera í þannig tengslum að geta mætt til viðkomandi, þá er þetta bjútifúl dæmi.

Á þessu bloggi hef ég deilt sögu minni og reynt að hafa það í jákvæðum og léttum gír. Enda þoli ég illa drama og grátur - sérstaklega þegar það snýr að mér. Ég sjálf á náttúrlega til að fara í dramakast og gráta en það geri ég bara fyrir fáa útvalda (aumingja kallinn minn ;-)). Oftast líður mér vel og mér finnst mikilvægt að þeir sem lesa þetta blogg finni það. Það er ekkert - greyið ég - þvílík örlög - í gangi. Ég er ekki að taka þetta á hnefanum (held ég) heldur er ég bara jarðbundin manneskja sem sæki mína hjálp þar sem ég finn hana. Bjargráðin eru víða - fyrir mig er það að skrifa til dæmis um reynsluna opinskátt og deila með öðrum og halda þeim sem þykir vænt um mig upplýstum á einfaldan hátt. Það er þreytandi fyrir alla sem standa mér nærri (og mig) að þurfa að svara spurningum um heilsu mína daginn út og inn og þægilegt að benda á bloggið.

Kynslóðin sem deilir fær oft skamm í hattinn og ýmsir hneykslast á þörf okkar til að deila öllu og engu með alheiminum. Stundum böggast ég líka en mér þykir mér vænt um FB-vini mína og því samgleðst ég þegar þeir eignast börn, gifta sig, útskrifast, elda fallegan og hollan mat, fara út að hlaupa, fara í bæinn og til útlanda, eiga góðar stundir með fjölskyldunni og svo framvegis. Oft lærir maður af þessum færslum og þær minna mann á hvað lífið er skemmtilegt og hvað við erum ólík en einstök.

Ég ætla að halda áfram að deila með heiminum því sem mig langar til. Þessum leiðangri mínum gegnum læknavísindin og að heilsu. Stundum efast ég um að ég sé að gera rétt og hugsa að fólk telji þetta einum of mikið af upplýsingum um mittt prívatlíf en miklu oftar hugsa ég ekkert um hvað öðrum finnst heldur skrifa - fyrir mig og þá sem mér þykir vænt um. Kærleikskveðja og knús.

GB sem deilir.

5 comments:

  1. Kæra Guðrún Birna.

    Ég hef öðru hvoru fylgst með bloggunum þínum í gegnum árin og haft gaman af þínum skrifum. Hef mikið hugsað til þín upp á síðkastið og var bent á þetta blogg þitt. Gott að sjá hvað þú ert flott í þessu sem öðru og átt mikið af góðu fólki allt í kringum þig. Gangi þér og þínum áfram vel!

    Kær kveðja,
    Anna Þorbjörg

    ReplyDelete
    Replies
    1. Takk kærlega fyrir falleg orð og allan stuðninginn! Kær kveðja til þín og þinna :)

      Delete
  2. Takk fyrir að deila og leyfa manni að fylgjast með þér í þessu verkefni, ert skemmtilegur penni. Bloggið þitt gæti líka hjálpað öðrum sem þarf að takast á við sama verkefni að sjá hvernig þú hefur tæklaði þetta. Frábært að sjá hvað þú ert jákvæð, sterk og bara skemmtileg :) Gaman saman! (sagt með hressa tóninum)

    knús og kveðja frá Cali
    Margrét Lára

    ReplyDelete
    Replies
    1. Takk fyrir allt elsku Margrét Lára mín. Knús til cali :)

      Delete
  3. Sé að ég þarf að vinna upp bloggfærslur frá þér mín kæra. Elska að fólk vilji deila, þú ert líka svo skemmtilegur penni :)

    Jæja, ætla að reyna að lesa gamlar fæslur frá þér á meðan litli minn sefur. Knús frá Þýskó <3
    kv. Svandís

    ReplyDelete