Monday, October 27, 2014

Stöndum saman

Ég bíð eftir greinum, bloggum og undirskriftarlistum þar sem þjóðin öll heitir heilbrigðiskerfinu stuðningi. Enn frekar bíð ég eftir aðgerðum stjórnvalda til að lækna og laga ástandið sem hefur náð nýjum lægðum með verkfalli lækna. Ég skil ekki hvers vegna ekki er hægt að styðja betur við stoðir samfélags sem kennir sig við velferð.
Ég vil ekki vera reið og bitur enda hentar mér betur að vera jákvæð og hress. En ég skil ekki hvernig hægt er að tala um viðsnúning í efnahagsmálum okkar og lækka skatta á sjónvörp en hækka matarskatt? Ég skil ekki hver biður um lækkun á tekjuskatti þegar augljóst virðist vera að enn vantar mikið fé til að styrkja grunnstoðir samfélagsins. Megum við segja nei takk? Nei takk ég vil borga sama skatt, en ég vil að þið lagið ástandið í heilbrigðiskerfinu í staðinn? Nei takk mig vantar ekki ódýrara stöff, en það vantar nýjustu lyfin fyrir krabbameinssjúklinga og lækna til að sinna þeim. Nei takk, ekki leiðrétta lánin mín en setjið þetta fjármagn í heilbrigðiskerfið sem á að vera í fremstu röð en er að ystu þolmörkum komið. Ég á ekki að þurfa að segja nei takk við forgangsröðun stjórnvalda. Forgangsröðunin á að vera í lagi og okkur öllum í hag.
Ef við höfum ekki heilbrigðiskerfi sem virkar og grunnstoðir sem gera sitt gagn þá skiptir ekki máli hvaða prósenta tekjuskatturinn er, því við verðum afskaplega fátæk þjóð. 
Þjóðarsátt strax, styðjum lækna og heilbrigðiskerfið! 

Tuesday, October 21, 2014

Að opna sál sína

Það er ekkert grín að vera með opið blogg um persónuleg mál. Sumum þykir sjálfsagt að deila með öðrum. Öllu sem þau gera. Mér þykir vænt um þetta fólk og þykir vænt um sjálfa mig, sem vill deila með öðrum. En stundum fíla ég þetta ekki. Mér finnst óþægilegt að hugsa til þess að ALLIR viti hvað ég er að hugsa og gera. Hvað kemur það þeim við? Hvað er ég að gera að kalla á þessu athygli? Athyglissjúka ég... Skamm.

En fólkið sem þekkir mig best veit að ég er ekki athyglissjúk. Ég er deilari. Þegar Kjartan Sveinn fæddist þá skrifaði ég um hann. Á hverjum degi. Oft á dag. Þetta var fyrir tíma snapchat, instagram og Facebook. Mér fannst mikilvægt að skrifa mikið um hann og okkur því ég vissi að ég er gleymin en langar að muna. Hvert einasta smáatriði. Þess vegna var ég með massíft dæmi í gangi á Barnalandi þar sem ég skrifaði og skrifaði. Um það að vera móðir og um barnið og um Guðmund. Svona þegar ég hugsa til baka þá verð er ég pínku vandræðaleg en líka mjög þakklát. Ég á heimildir um mig og okkur, hvað ég var að hugsa og gera í alveg nokkur ár! En aumingja hin börnin sem eru mér alveg jafn merkileg og mögnuð. Þau fá ekkert svona massíft blogg. Stundum snap. Stundum myndband á instagram eða Facebook.

Í veikindunum og í þessari rússíbanaferð þá hef ég oft hugsað um að skrifa meira en hugsa líka hvað það er skrítið og óþægilegt að alls konar fólk sé að lesa það sem ég skrifa. Meta það og gagnrýna. En mér líður betur þegar ég skrifa niður það sem ég er að hugsa. Ég er fyrst og fremst að gera þetta fyrir sjálfa mig. Ég gæti því haft þetta lokað svæði en hugsa svo aðeins lengra og um fólkið mitt og fólk sem hefur gagn eða gaman að því að lesa það sem ég skrifa og hugsa bara æi þetta er bara alveg ok. Ég er ok. Þetta má alveg.

Núna vildi ég óska að ég hefði haldið áfram geðveikislegum skrifum um hvert einasta smáatriði (nei kannski ekki svona smáatriði en aðalatriðin) í lífi okkar fjölskyldunnar. Mér finnst ég ekki hafa tíma til að skrifa og skrá hvað lífið er magnað. Hvað börnin eru ólík og dásamleg. Hvað hversdagurinn tekur mikinn tíma og orku en hvað hann gefur líka mikið. Hvað það er gott að vera heima hjá sér. Hvað það er dásamlegt að eiga vini og að allir eigi sína vini til að leika við. Hvað það er mikilvægt að rækta vinskap og hvað það er mikilvægt að vera saman og hafa gaman.

Anna Katrín: Litla prinsessan sem átti aldrei að vera kölluð prinsessa en elskar bleikt og prinsessur (þrátt fyrir metnaðarfullar tilraunir til að minnka þann áhrifaþátt ungra stúlkna). Prinsessan sem er líka sterk eins og Lína, dugleg eins og Dóra og klár í hausnum sínum (línan sem við segjum mjög oft). Hún reynir á þessi elska en mikið gefur hún okkur líka mikla gleði. Dansar og syngur hátt. Kann ótrúlega margt og er ákveðin og veit nákvæmlega hvað hún vill. Rosaleg leiðtogahæfni. Segi ekki meir.

Bjarki Freyr: Elsku miðjan okkar sem er endalaust duglegur, flottur og klár. Stríðnispúkinn með ljúfa viðmótið. Lausnarmiðaði drengurinn okkar sem saknar enn leikskólans þó hann sé hættur að leika sér (að eigin sögn). Tölvuleikjakallinn sem æfir fótbolta og er með keppnisskap sem er langt frá mínum skilningi. Stundum þarf ég að setja mig í stellingar til að ná til hans því hann er ólíkur mér en það er sko allt í lagi og eiginlega frábært. Hvaðan hann fær keppnisskapið er enn óvíst.

Kjartan Sveinn: Alltaf svo sjálfum sér líkur. Ljúfur, klár og skemmtilegur. Góður vinur. Bóksjúkur og svo mikill pælari. Hann er svo oft einhvers staðar annars staðar og ég væri alltaf til í að vera þar með honum. Elsta barnið sem hefur endalausa þolinmæði gagnvart systkinum sínum og svo gott viðmót og lífsviðhorf. Hann er frábær fyrirmynd fyrir okkur öll.

Ég elska þessi börn og er svo heppin að fá að vera með þeim á hverjum degi.