Ég vil ekki vera reið og bitur enda hentar mér betur að vera jákvæð og hress. En ég skil ekki hvernig hægt er að tala um viðsnúning í efnahagsmálum okkar og lækka skatta á sjónvörp en hækka matarskatt? Ég skil ekki hver biður um lækkun á tekjuskatti þegar augljóst virðist vera að enn vantar mikið fé til að styrkja grunnstoðir samfélagsins. Megum við segja nei takk? Nei takk ég vil borga sama skatt, en ég vil að þið lagið ástandið í heilbrigðiskerfinu í staðinn? Nei takk mig vantar ekki ódýrara stöff, en það vantar nýjustu lyfin fyrir krabbameinssjúklinga og lækna til að sinna þeim. Nei takk, ekki leiðrétta lánin mín en setjið þetta fjármagn í heilbrigðiskerfið sem á að vera í fremstu röð en er að ystu þolmörkum komið. Ég á ekki að þurfa að segja nei takk við forgangsröðun stjórnvalda. Forgangsröðunin á að vera í lagi og okkur öllum í hag.
Ef við höfum ekki heilbrigðiskerfi sem virkar og grunnstoðir sem gera sitt gagn þá skiptir ekki máli hvaða prósenta tekjuskatturinn er, því við verðum afskaplega fátæk þjóð.
Þjóðarsátt strax, styðjum lækna og heilbrigðiskerfið!
Alveg sammála, heilbrigðiskerfi sem virkar á að vera fyrsta forgangsröðun,, alveg sama hver er við völd :/
ReplyDelete