Wednesday, October 16, 2013

Gleði

Í dag líður mér vel. Í dag er ég glöð. Ég bý á yndislegum stað með góðu fólki og hef nú þegar talað við nokkrar af mínum bestu vinkonum. Ég fylgdi dóttur minni út í morgun á leikskólann þar sem hún fór sæl og glöð í kjólnum sem hún valdi sér sjálf og með flétturnar sem ég fléttaði í hana Línu langsokk stæl. Ég fékk mér göngutúr um horfði heim til Eyja í dásamlega veðrinu. Kjartan Sveinn og Bjarki Freyr voru úti í frímínútum og tóku ekki eftir mér því þeir skemmtu sér svo vel.

Ég bjó um rúmin og setti í vél. Þetta veitti mér ef til vill ekki eins mikla gleði og ofantalið en einhvers konar vellíðan get ég sagt. Sense of accomplishment á ensku. Á lista dagsins er líka að ryksuga (eða biðja KS að gera það fyrir mig) og klára vinnutengt verkefni.

Gleði í núinu er mér umhugsunarefni þessa dagana. Svokölluð núvitund eða mindfulness passar vel við það sem ég er að takast á við. Að lifa hverja stund og njóta hverrar stundar. Sleppa takinu af stressi og kvíða og leiða. Leyfa þeim tilfinningum sem ég veit að gera mér lítið gagn að líða hjá og hverfa.

Ég ætla svo sannarlega að nota hverja stund og finna mér gleði hvern einasta dag. Það er mjög auðvelt en stundum þarf maður að ákveða það sem er samt auðvelt.

Hlustaði til dæmis á þennan fyrirlestur áðan og fannst ég hafa gott af:

http://www.fyrirlestrar.is/fyrirlestrar/meiri-hamingja-med-nuvitund/

Svo gleður þessi litla skotta mig líka.

1 comment:

  1. Hún er bara æði þessi dúlla, langaði bara að horfa aftur sko :)

    ReplyDelete