Sunday, October 13, 2013

So far so good

Á morgun fer ég aftur í lyfjagjöf. Það er vika síðan ég fékk fyrsta skammtinn minn og vikan hefur verið ágæt. Fyrir helgi fékk ég lyfjabrunn og það var svoldið mikið stand í kringum þessa fyrstu viku. Guðmundur stóð vaktina heima með ómetanlegri aðstoð frá pabba. Leikskólinn var að flytja akkúrat þessa daga sem ég fékk fyrstu skammtana og um nóg að hugsa í sveitinni. Vægast sagt.

Það er sérkennilegt að vera í burtu frá heimilinu sínu í svona langan tíma. Frá börnunum og eiginmanninum. Frá vinnu og vinum. Og allt í einu er ég bara 15 ára aftur að horfa á telly með foreldrunum og pabbi að skutlast með mig til vinkvennana. Síðan ég var 15 hefur ýmislegt breyst. Til dæmis tilkoma Alþingisrásarinnar. Móðir mín kallaði á mig einn daginn og spurði mig hvort ég ætlaði ekki að koma og horfa með sér. Ég var svolítið hissa því klukkan var bara 10.30. Um morgun. Óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi á dagskrá og við mamma komnar í feitt. Það gerist ekki meira spennandi.

Á morgun fæ ég mína lífsgjöf eins og ég hef ákveðið að líta á lyfjagjafirnar. Ég vona að vikan verði bærileg og þetta gangi áfram svona. So far so good.

1 comment:

  1. Hugsa til þín í dag, vinkona. - Takk fyrir að deila þessu með okkur hér. Þú ert svo skemmtilegur penni :-)

    ReplyDelete