Monday, April 14, 2014

Næsta mál á dagskrá

Síðustu dagar og vikur hafa verið dásamlegar. Eftir síðustu "erfiðu" meðferðina - sem var sú skásta af síðustu fjórum fagnaði ég afmælinu mínu... í ca viku! Það var alltaf eitthvað skemmtilegt á dagskrá og það var hrikalega gaman. Svo fór ég til Parísar með vinkonum mínum og átti dásamlega daga með eðalkonum þar sem við leystum öll heimsins vandamál og nutum þess að vera til. Æði!



Við stelpurnar gistum í íbúð á geðveikum stað - í 4. hverfi í lítilli göngugötu sem var full af krúttlegum litlum búðum. Þetta var draumi líkast. Mér fannst París meiriháttar skemmtileg og það var þvílíkur bónus að hafa inside information og guide með okkur. Svala (www.sveil.blogspot.com) klikkar ekki á smáatriðunum. Takk elsku Svala og þið allar fyrir meiriháttar skemmtun og að búa til minningar sem eru ómetanlegar. Dýrmætasti fjársjóðurinn.  

Heilsan er góð en eftir páska fer ég í geisla. 25 skipti - 5 vikur. Það mun ganga vel!

Sumarið er fullt af fyrirheitum. Minningarnar munu hrannast upp, ferðalög innanlands og utan með kærum vinum og alls konar skemmtilegt. Fer í herseptín á 3ja vikna fresti alveg fram í október en aukaverkanir eru vægar og ég á von á að það trufli ekki mikið hversdagsleikann, ferðalög og skemmtilegheit í sumar.

Læknirinn minn segir mér reglulega að það megi ekki sjúkdómavæða mig og hvetur mig til að gera það sem mig langar og það sem ég vil. Já og það er ég að gera! Oui.

No comments:

Post a Comment