Tuesday, November 26, 2013

Ekki heimavinnandi húsmóðir

Það voru skýr skilaboðin frá móður minni um daginn þegar ég heyrði í henni. Ég var að telja upp afrek dagsins - þau voru ekki mörg eða merkileg en það var eitthvað svona að ég hafi gengið frá eftir morgunmatinn, sett í vélar, búið um. Í staðinn fyrir að hrósa mér þá sagði hún ströng að ég yrði að átta mig á því að ég væri ekki heimavinnandi húsmóðir heldur væri ég sjúklingur. Sjúklingur kjúklingur - það er ekki hægt að vera sjúklingur þegar maður á þrjú börn. Það er allavega mjög erfitt. Lífið hættir ekki þó ég þurfi að taka mér nokkrar pásur frá virkri þátttöku í því. Mamma bakkaði aðeins og sagðist skilja að ég þyrfti að gera þessi helstu verk en ég veit að hún var að styðja mig af öllu hjarta og hvetja mig til að vera ekki með dæmigerða húsmæðrasamviskubitið. Frábær mamma!

Af hverju er ég ekki búin að taka skápana í gegn? Hvers vegna er alltaf drasl í forstofunni? Af hverju er ég ekki búin að sortera dvd-diskana? Af hverju elda ég ekki alls konar mat og set í frysti um helgar? Af hverju baka ég aldrei brauð? Af hverjur er ég ekki tilbúin með heitar pönnsur þegar kids koma heim?   Af hverju er drasl hér og þar? Hvers vegna er ég ekki búin að taka til í sokkaskúffum og skúffum almennt? Hvað er málið með allan þennan þvott? Af hverju, hvers vegna og hvað?

Þetta er brotabrot af spurningum sem ég spyr mig reglulega með strangri röddu. Nú svo er hægt að bæta við öllu jólastússsamviskubitinu. Það eru ókeyptir pakkar, óskrifuð jólakort, óbakaðar smákökkur, ógert handgert skraut, ófarnar ferðir í jóla hitt og þetta.

Nú svo þurfa allir vera vel klipptir, vel klæddir, vel uppaldir og fullkomnir.

Heimavinnandi húsmóðir óskast í Skólatröð ASAP til að bjarga jólunum!

Það er reyndar mánuður til stefnu og ég ætla að anda inn og út og njóta.

P.s. reyndar er ég laus við að ætla að verða mjó um jólin og ég hef ekki hugsað um aukakíló eftir að ég greindist. Eitt af því fjölmörgu góða sem hefur gerst eftir greiningu. Þó vil ég huga að heilbrigði og get skrifað annan pistil um samviskubitið sem ég hef gagnvart sjálfri mér og heilsueflingu fjölskyldunnar. Það er af nógu að taka þar. Til dæmis þegar ég fór að grenja þegar GFS keypti 1 kg af hvítum sykri um daginn. Það var samt steikt, bæði af honum og ok líka af mér að fara að grenja (kenni auðvitað lyfjum og sterum um þessi smá ýktu viðbrögð)!


1 comment: